Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Þriðjudaginn 10. febrúar 2009, kl. 16:24:18 (3538)


136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

279. mál
[16:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil benda á að frumvarpið um greiðsluaðlögun kom fyrst fram hjá Sjálfstæðisflokknum. Síðan kemur ríkisstjórnin með örlítið breytt frumvarp til þess að eiga einhvers konar höfundarrétt að málinu.

Og núna tilkynnti hæstv. fjármálaráðherra að í staðinn fyrir að taka þetta frumvarp sem hann ætlar að flytja hvort sem er með einhverjum breytingum ætli hann að koma með nýtt frumvarp. Í staðinn fyrir að ræða frumvarpið efnislega, vísa því til nefndar, koma svo með breytingartillögur fyrir nefndina — þannig vinna menn tíma — ætlar hæstv. fjármálaráðherra að koma með nýtt frumvarp. Það þarf að mæla fyrir nýju frumvarpi. Það þarf að fara aftur í gegnum málið, fara aftur í nefnd o.s.frv. Ég hlýt að gagnrýna það. (Gripið fram í.)

Ég gagnrýni að það liggja fyrir frumvörp sem menn ætla að flytja og hægt er að gera á þeim breytingar, smávægilegar breytingar. Það hefði mátt gera breytingar á frumvarpinu um greiðslumiðlun í nefndinni. (Gripið fram í.) Það má líka gera á frumvarpinu um séreignarsparnaðinn. Ef hæstv. fjármálaráðherra sér einhverja meinbugi á frumvarpinu, ef ráðuneyti hans uppgötvar eitthvað, er léttur leikur að breyta því í nefndinni.

Það mundi flýta málinu og væri til hagsbóta fyrir heimilin í landinu sem bíða eftir þessum ráðstöfunum. Og svo eru margar ráðstafanir fleiri sem eiga eftir að koma. Það er bara lofað einhverju. Jú, það kemur kannski einhvern tímann, ef til vill, líklega.