Tekjustofnar sveitarfélaga og gatnagerðargjald

Fimmtudaginn 12. febrúar 2009, kl. 12:01:52 (3642)


136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

tekjustofnar sveitarfélaga og gatnagerðargjald.

185. mál
[12:01]
Horfa

Frsm. samgn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Í sjálfu sér þarf ekki að hafa mikið fleiri orð um þetta mál. Ég vil þó lýsa því yfir hér að ég er afskaplega ánægð með að það virðist ríkja þverpólitísk sátt um frumvarpið sem er afar mikilvægt því eins og hv. þm. Sturla Böðvarsson kom inn á er málið byggt á samkomulagi og samstarfi ríkis og sveitarfélaga, samkomulagi sem var undirritað síðastliðið haust. Ég held að við ættum að sameinast um það á Alþingi þessa daga fram að kosningum að sýna samstöðu um mikilvæg mál sem skipta fólkið í landinu máli, samstöðu um mál sem skipta sveitarfélögin í landinu máli og samstöðu um mál sem skipta fyrirtækin í landinu máli. Hv. þm. Sturla Böðvarsson dró einnig fram að þetta mál hefði verið unnið í tíð fyrri ríkisstjórnar og það er auðvitað hárrétt hjá hv. þingmanni. En í sjálfu sér finnst mér það ekki skipta neinu máli. Þetta góða mál er í höfn með samstarfi allra þeirra flokka sem sitja á Alþingi og ég vil nota tækifærið, frú forseti, undir þessum lið til að brýna okkur á þessum síðustu dögum til að vinna mál eins og hér er gert. Hv. þm. Ragnheiður Ólafsdóttir sagði í ádrepu sinni á þingheim í gær að það lítur auðvitað afar sérkennilega út þessa dagana þegar ástandið í efnahagsmálum er eins og það er að Alþingi Íslendinga skuli eyða tímanum sínum dag eftir dag í að ræða um formsatriði, í að deila um höfundarrétt, í að deila um það hverjir eiga að stýra fundum og svo framvegis. Ég tel að Alþingi Íslendinga setji niður við svona umræður. Ég tel að við öll í þessum sal eigum að hafa þroska og þor til að hefja okkur yfir þessa flokkadrætti. Við eigum að nota þann tíma sem fram undan er. Mér telst svo til í dag að 71 dagur sé til kosninga. Við eigum að hafa pólitískan þroska til að ræða hér málin af skynsemi og yfirvegun því að oftast er það þannig eins og í því máli sem hér er til umræðu að menn eru sammála.

Ég vildi bara nefna þetta hér, frú forseti, í tengslum við þetta þó að það sé svolítill útúrdúr. En þetta frumvarp skiptir sveitarfélögin máli og það skiptir líka máli að hér sé samstaða og menn ræði saman af skynsemi og yfirvegun, afgreiði svona mál fljótt og vel frá þinginu því að fullt af sams konar málum bíða í þingnefndum, fullt af svona málum koma á næstunni frá hæstv. ríkisstjórn og Alþingi þarf að afgreiða þau fljótt og vel.