Minning Sigbjörns Gunnarssonar

Mánudaginn 16. febrúar 2009, kl. 15:02:04 (3690)

136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

minnst látins fyrrverandi alþingismanns.

[15:02]
Horfa

Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Sigbjörn Gunnarsson, fyrrverandi sveitarstjóri og alþingismaður, andaðist í gær, 15. febrúar. Hann var 57 ára að aldri.

Sigbjörn Gunnarsson fæddist á Akureyri 2. maí 1951. Foreldrar hans voru hjónin Guðrún Sigbjörnsdóttir tryggingarfulltrúi og Gunnar Steindórsson kennari, sonur Steindórs Steindórssonar skólameistara og alþingismanns fyrir Alþýðuflokkinn.

Sigbjörn lauk stúdentsprófi við Menntaskólann á Akureyri 1972, nam síðan lögfræði við Háskóla Íslands 1974–1975. Hann var kennari við Gagnfræðaskóla Akureyrar um þriggja ára skeið en gerðist kaupmaður á Akureyri 1976. Eftir að þingmennsku lauk og Sigbjörn hafði sinnt ýmsum verkefnum á annað ár varð hann árið 1997 sveitarstjóri Skútustaðahrepps í Mývatnssveit og gegndi því starfi í 8 ár eða fram til 2005. Hann var sveitarstjóri Þingeyjarsveitar 2006 og gegndi því starfi uns hann veiktist á sl. sumri.

Sigbjörn Gunnarsson átti sterkar rætur í heimabæ sínum, Akureyri. Hann var þegar ungur maður félagslega sinnaður, hóf snemma afskipti af félagslífi á Akureyri og síðan stjórnmálum og skipaði sér í raðir Alþýðuflokksins. Á yngri árum var Sigbjörn knattspyrnumaður og þótti hafa gott keppnisskap. Hann var síðan forvígismaður í æskulýðs- og íþróttastarfi um áratugaskeið og lagði hvarvetna gott til, einkum innan knattspyrnuhreyfingarinnar og var kjörinn til forustustarfa í knattspyrnusambandinu.

Kjörtímabilið 1987–1991 var Sigbjörn varaþingmaður Norðurlandskjördæmis eystra og sat eitt þing, vorið 1988. Árið 1991 tók hann við forustusæti flokks síns í kjördæminu og var kjörinn á þing í aprílmánuði það ár. Hann sat á Alþingi í fjögur ár. Samtals sat hann á sex þingum. Sigbjörn hélt áfram afskiptum af stjórnmálum þótt hann ætti ekki afturkvæmt á Alþingi. Hann var formaður heilbrigðis- og trygginganefndar tvö ár á Alþingi en seinni hluta þess kjörtímabils var hann formaður fjárlaganefndar, 1993–1995. Hann sýndi mikinn dugnað í því starfi og réttsýni og sanngirni í erfiðu hlutverki sem honum var trúað fyrir. Loks varð Sigbjörn formaður þingflokks Alþýðuflokksins síðasta veturinn á þingi. Þingmennskuár sín var hann fulltrúi Alþingis á fundum Evrópuráðsþingsins.

Sigbjörn Gunnarsson kom á Alþingi reyndur í félags- og atvinnulífi og naut þeirrar reynslu í starfi alþingismanns. Hann var lipur í samskiptum, hreinn og beinn og fylgdi málum eftir af festu.

Ég bið þingheim að minnast Sigbjörns Gunnarssonar fyrrverandi alþingismanns með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]