Breytt skipan gjaldmiðilsmála

Mánudaginn 16. febrúar 2009, kl. 16:44:39 (3725)


136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

breytt skipan gjaldmiðilsmála.

178. mál
[16:44]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Já, þetta er vissulega þörf umræða en hún hefur farið fram oft áður og við Íslendingar hjökkum alltaf í sama farinu. Það er eins og það sé ekki nokkur leið að þróa þessa umræðu eitthvað fram á veginn. Menn eru bara fastir í því að láta skoða þetta og skoða hitt og helst kannski það, eins og staðan er núna, að taka upp einhvern annan gjaldmiðil, gjaldmiðil einhvers annars þjóðríkis.

Mér fannst alveg ótrúlega skemmtilegt að hlusta á síðasta ræðumann, hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson, (SKK: Þakka þér fyrir.) sem segir núna að ekki megi útiloka neina möguleika. Það verði að marka framtíðarstefnu og skoða alla þá valkosti sem geti verið í stöðunni. (SKK: Nema inngöngu í Evrópusambandið ...) Hv. þingmaður bætir því við núna að skoða eigi allt nema að ganga í Evrópusambandið en það kom eiginlega ekki fram í ræðunni.

Mér er mjög minnisstætt þegar sú sem hér stendur kom fram með ýmsa valkosti í þessum efnum fyrir u.þ.b. þremur árum og taldi að ekki væri framtíð í því að vera með íslenska krónu og sjálfstæðan gjaldmiðil í okkar litla hagkerfi. Þá sagði hv. þingmaður fyrir utan Alþingishúsið, og var nokkuð drjúgur með sig, að enginn gæti komið með svona vitlausa tillögu nema Valgerður Sverrisdóttir. Þá kom ekki til greina að skoða alla kosti eins og ég lagði til.

Ég held því fram að ef Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki búinn að þumbast við í öll þessi ár og neita að taka á því mikilvæga máli, sem er þessi sjálfstæði gjaldmiðill í okkar litla hagkerfi, stæðum við í öðrum sporum í dag. Valdaseta Sjálfstæðisflokksins í íslensku samfélagi á svona mörgum síðustu árum er því búin að kosta þetta samfélag mjög mikið og ekki verður séð fyrir endann á því alveg strax. Vissulega verður forvitnilegt að heyra hvaða niðurstaða verður á landsfundi þeirra sem haldinn verður fljótlega og varðar Evrópumál en ég tel ekki miklar líkur á að tekin verði stór skref.

Þegar hv. þingmenn tala um það, eins og það sé bara spurning um vilja okkar, hvort hægt sé að taka upp norska krónu eða ekki finnst mér þeir vera nokkuð bjartsýnir, ef það má orða það þannig. Það er ekki eins og Norðmenn mundu stökkva til og láta okkur hafa norska krónu til þess að leika okkur að á Íslandi í allri þeirri eyðslusemi sem tíðkast hefur hér og hv. þm. Pétur Blöndal fór nokkuð yfir. Auðvitað mundu þeir þá vilja taka hér við stjórn efnahagsmála, alla vega ríkisfjármála, að verulegu leyti.

Ég tók eftir því þegar fjármálaráðherra Noregs, sem var hér nýlega í heimsókn, var spurð að því hvernig Norðmönnum litist á að við tækjum upp norska krónu sagði hún: Ef við fengjum formlegt erindi þar að lútandi yrði það tekið til athugunar. Hún hafði allan fyrirvara á. Ég skil mjög vel að hún hafi ekki verið tilbúin að svara þessari spurningu. Hún líka gerir sér alveg grein fyrir því að norsk stjórnvöld munu aldrei fá þessa fyrirspurn formlega. Það mun engin ríkisstjórn vera hér við völd sem mun leggjast svo lágt að óska eftir því að taka upp gjaldmiðil annars þjóðríkis, það leyfi ég mér að fullyrða.

Við framsóknarmenn höfum unnið mikið í þessu máli. Við erum ekki að byrja að hugsa um það í dag, við erum búin skoða gjaldmiðilsmálin vel og reyna að átta okkur á því hvaða kosti við eigum. Sú nefnd sem var að störfum innan flokksins skilaði skýrslu á haustdögum. Niðurstaðan var sú að í rauninni væri ekki nema um tvennt að ræða, að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru eða að styrkja gjaldeyrisvaraforða okkar stórlega þannig að hann yrði margfaldur á við það sem hann er í dag og það kostar náttúrlega gríðarlega peninga. Þetta var niðurstaða nefndarinnar og síðan höfum við haldið flokksþing okkar eins og hv. þingmenn þekkja. Þar komumst við að þeirri niðurstöðu að réttast væri að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Þegar hv. þingmenn tala um að það taki líklega sex ár eða svo að taka upp evruna í gengum Evrópusambandið eru menn bara að skjóta út í loftið. Það hefur ekkert verið farið á fjörur við Evrópusambandið um að sækja um aðild og reyna að gera stöðugleikasamning við sambandið sem mundi þá vera eitthvað í líkingu við að fá aðild að því fordyri sem þar hefur verið.

Mér finnst bara sorglegt, hæstv. forseti, hvað þessi umræða þróast lítið og hvað menn eru fastir í einhverjum lausnum. Þær eru ekki lausnir í raun og veru heldur eru eingöngu settar fram til þess að þykjast hafa eitthvað til málanna að leggja og tefja að verði farið í viðræður við Evrópusambandið.

Þetta er það sem ég hef að segja þó að ég vilji taka það fram, hæstv. forseti, að ég hef alls ekki neitt á móti þessari tillögu. Hún er þó alla vega viðleitni í þá átt að hreyfa þessu máli og reyna að koma því í einhvern farveg því að það hefur engin ríkisstjórn sem setið hefur getað komið þessu máli í almennilegan farveg. Fyrst og fremst hefur það verið vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn sérstaklega hefur ekki viljað ræða aðild að Evrópusambandinu. Hann hefur lagt sig fram um að senda slæm skilaboð til Evrópusambandsins og gera kröfur á það en sýna engan samstarfsvilja. Það hefur, eins og ég segi, kostað okkur mikið og ekki verður séð fram úr því á þessari stundu. Ég er kannski óþolinmóð, það mætti kannski kalla óþolinmæði að ætlast til þess að mál þróist eitthvað í umræðu, en ég endurtek að ég tel að þetta mál hafi ekki þróast mikið á síðustu árum.