Breytt skipan gjaldmiðilsmála

Mánudaginn 16. febrúar 2009, kl. 17:08:58 (3728)


136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

breytt skipan gjaldmiðilsmála.

178. mál
[17:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður segir að við eigum að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Það er bara ekki svo einfalt. Eftir þær kúganir sem Evrópusambandið beitti íslenska þjóð sl. haust sameiginlega — íslenska þjóðin lá svo vel við höggi, hún var búin að tapa bönkunum sínum — þá beitti Evrópusambandið okkur kúgun til þess að taka ábyrgð á Icesave-reikningunum. Það er þvílík skuldbinding að Íslendingar munu ekki uppfylla Maastricht-skilyrðin fyrr en eftir áratug. Það þýðir að ef við göngum í Evrópusambandið getum við síst af öllu tekið upp evru, af því að við þurfum að uppfylla Maastricht-skilyrðin til þess að geta tekið upp evru. Það er allt að þakka vinum okkar svokölluðu í Evrópusambandinu, sem hv. þingmaður vill endilega taka upp félagsskap við.