Breytt skipan gjaldmiðilsmála

Mánudaginn 16. febrúar 2009, kl. 18:06:36 (3743)


136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

breytt skipan gjaldmiðilsmála.

178. mál
[18:06]
Horfa

Flm. (Jón Magnússon) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi spurninguna um það hvort menn í bandaríska hagkerfinu hefðu miklar áhyggjur af Texas eða það breytti miklu, þá reikna ég með því að það sama sé uppi á teningnum hjá okkur að Neskaupstaður hafi ekki úrslitaáhrif um það með hvaða hætti stýrivaxtaákvörðunum Seðlabankans verði háttað.

Ég og hv. þm. Illugi Gunnarsson erum sammála um að stýrivaxtaákvarðanirnar og hvernig hagkerfið var keyrt hafi verið röng stefna og við bentum báðir á það löngu áður en til efnahagshrunsins kom að breyta þyrfti um stefnu. Það hefði betur verið gert.

Að sjálfsögðu er meginatriðið að menn átti sig á því að það verður að finna þann grundvöll sem peningastefna þjóðarinnar á að byggja á. Ég varaði við því og benti á í framsöguræðu minni að við færum aftur í þá vegferð sem reyndist okkur svo illa með því að hafa krónuna á floti og að það réðist af framboði og eftirspurn hvernig gengið þróaðist og hvort krónan yrði í frjálsu falli eða ekki.

Við yrðum að hafa meira öryggi varðandi íslenska hagkerfið fyrir fyrirtæki og fjölskyldur. Ekkert annað kemur til greina og það er jú meginatriðið og meginhugsunin á bak við flutning tillögunnar — sem ég er mjög þakklátur fyrir að þingmenn hafa almennt tekið undir og eru sammála, þótt menn greini á um einhver minni háttar atriði eða hvort við eigum að gera þetta eða fara einhverja aðra leið. En þá hefur komið fram að samstaða er meðal þingmanna um að ekki gengur að fylgja sömu peningamálastefnu og fylgt var. Við verðum að búa við meira öryggi og tengjast alþjóðlegu myntsamstarfi.