Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Þriðjudaginn 17. febrúar 2009, kl. 20:40:59 (3878)


136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[20:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég flutti breytingartillögu í vetur um að þingmenn mættu velja sér lífeyrissjóði á almennum markaði. Hún var kolfelld. Ég man ekki alveg en miðað við hvað taflan var rauð hef ég grun um að hv. þingmaður hafi líka greitt atkvæði gegn því að þingmenn mættu velja sér lífeyrissjóð eins og umbjóðendum þeirra er gert að greiða til, sjómanninum á Raufarhöfn, bóndanum í Bárðardal o.s.frv. Þeim er gert að borga í Lífeyrissjóð bænda og Lífeyrissjóð sjómanna, sama hvort þeir vilja eða ekki, og þeir sjóðir munu því miður líklega verða skertir — en ekki sá sjóður sem við göngum nú í og hv. þingmaður spurði hvort ég hefði samþykkt í vetur.

Ég er yfirleitt á móti því að fara úr einu forréttindakerfi í annað. (Gripið fram í.) Ég vil gera þetta gagnsætt, ég vil sýna hvers virði réttindin eru og ég vil að einhverjir þingmenn fari í almennu sjóðina þar sem 80% kjósenda eru. 80% landsmanna eru í almennu lífeyrissjóðunum og þar eru réttindin ekki föst heldur breytileg. Þau falla þegar staða þjóðarinnar versnar og mjög erfitt verður fyrir fólk að horfast í augu við það og enn erfiðara fyrir þingmenn að horfa framan í kjósendur sína í þeirri stöðu og vera sjálfir pikkfastir með pikkföst réttindi og forréttindi og hækkandi iðgjald ríkisins, ekki sjálfs sín.

Ég held að hv. þingmaður og Framsóknarflokkurinn, og þingmenn yfirleitt, ættu að styðja það ef ég flyt breytingartillögu við frumvarpið í sömu veru og í vetur um að menn geti alla vega valið sér lífeyrissjóð annars staðar og deilt kjörum með kjósendum sínum.