Seðlabanki Íslands

Föstudaginn 20. febrúar 2009, kl. 15:55:37 (4113)


136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:55]
Horfa

Ragnheiður Ólafsdóttir (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hver samdi frumvarpið er spurt aftur og aftur. Spurning um gegnsæi. Mig langar að minna hv. sjálfstæðismenn á hver voru vinnubrögðin hjá þeim á árum áður á meðan þeir stjórnuðu landinu í 18 ár. Var það gegnsæi? Hver samdi lagadrög þeirra? Skiptir þetta einhverju máli? Ég hef sagt það fyrr í þessum ræðustól að mér finnst þetta vera orðin hallærisleg vinnubrögð. Hér er haldið uppi málþófi. Hver sjálfstæðismaðurinn á fætur öðrum kemur og heldur sömu ræðuna með sama innihaldi sem skilar engum árangri í raun og veru öðrum en að vekja á sér pólitíska athygli.

Þeir koma hér með nefndarálit frá minni hlutanum. Það hefur legið frammi og það er búið að fara í gegnum það. Það er búið að skýra það og ræða það og þarna er ýmislegt gott og lagt til af góðum hug en mér finnst orðið tímabært að sjálfstæðismenn átti sig á að þeir eru í stjórnarandstöðu og þurfa ekki að vera með endalaust málþóf. Það er þeim ekki til sóma. Og allt þetta karp sem er búið að vera í gangi núna um það hver samdi lagafrumvarpið. Mér er skítt sama — fyrirgefið orðbragðið — hver gerði það, aðalatriðið er að það er verið að taka á málum. Það er verið að vinna að málum sem eru þjóðinni til heilla, vonandi til langrar framtíðar, og það er það sem skiptir máli. Ekki hver samdi.