Ábyrgðarmenn

Þriðjudaginn 24. febrúar 2009, kl. 15:31:40 (4183)


136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

ábyrgðarmenn.

125. mál
[15:31]
Horfa

Ragnheiður Ólafsdóttir (Fl):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frumvarpi mjög og tel mikilvægt að það nái í gegn á þeim skamma tíma sem er til vors á meðan þetta þing situr.

Ég hafði ekki séð frumvarpið áður og þess vegna er það sem kemur fram í því mjög mikilvægt fyrir mig, eins og t.d. að undanskilja heimili vegna gjaldþrota, þ.e. að heimilið sjálft sé friðhelgt, að fólk hafi stað til að búa á. Það skiptir mjög miklu máli.

Ábyrgðarmannakerfið er einsdæmi á Íslandi. Það verður að segjast eins og er. Það hefur valdið þvílíkum skaða og sársauka í þjóðfélaginu að það er með eindæmum. Enginn í nútímanum hefði getað búist við því hruni sem varð í fyrrahaust og þeir sem höfðu axlað ábyrgð á lánum sínum eða uppáskriftum fyrir lán annarra hefðu ekki getað ímyndað sér að staðan yrði eins og hún er í dag. Hagsmunir kröfuhafa eru ótrúlega sterkir og í raun alveg óskiljanlegir eins og hefur komið fram hérna. Og það er ekki bara belti, það eru axlabönd og jafnvel fallhlífar sem eru settar til að vernda kröfuhafana.

Fjölskylduharmleikirnir eru gífurlega miklir, mikil upplausn og slit hafa orðið á fjölskylduböndum sem ævarandi sársauki hefur fylgt og elt fólk og fjölskyldur svo árum skiptir. Núverandi ábyrgðarmannakerfi eða ábyrgðakerfi er ómanneskjulegt og þess vegna fagna ég þessu frumvarpi og vona að það nái í gegn á þessu þingi, að verkin verði látin tala og frumvarpið verði að lögum sem allra fyrst.