Skattamál

Miðvikudaginn 25. febrúar 2009, kl. 14:29:20 (4218)


136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

skattamál.

294. mál
[14:29]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég get m.a. svarað þannig að 70 milljónir kr. á mánuði eru háar tekjur þegar Ísland átti tekjuhæsta mann Norðurlanda (REÁ: En er það táknrænt? Ég var að spyrja um stefnu þína.) en bjó um hann í sérstakri skattabómull sem Sjálfstæðisflokkurinn bauð upp á. Hvað gerði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins (Gripið fram í.) fyrir áramótin? Hún hækkaði tekjuskatt og útsvar samtals flatt um 1,5%. (REÁ: Til að koma í veg fyrir jaðaráhrif.) Var það ekki vegna erfiðleikanna? Var það ekki vegna hallans á ríkissjóði? Var það ekki til þess að reyna að minnka gatið? Skattkerfið flattist hér út í tíð Sjálfstæðisflokksins þótt reyndar væri hátekjuskattur þar við lýði sennilega fyrstu 10, 12 árin af tæplega 18 ára valdatíma Sjálfstæðisflokksins.

Sjálfstæðisflokkurinn kvartaði undan því að viðmiðunarmörkin væru of lág, þetta væru ekkert háar tekjur. Hann hækkaði ekki viðmiðunarmörkin. Nei, hann afnam skattinn. (Gripið fram í.) Á tímum þegar ofurlaun stefndu til himins á Íslandi skar Ísland sig úr hvað varðar skattkerfi t.d. Norðurlandanna og margra nálægra ríkja, það var ekkert sérstakt álag á hæstu tekjur, ekki einu sinni á ofurlaunin. (REÁ: Hverjar eru lágar tekjur?) Tekjujöfnunargildi íslenska skattkerfisins hefur minnkað, við höfum þokast upp Gini-stuðulinn svonefnda vegna þess að stefna Sjálfstæðisflokksins var að fletja skattinn út og auka skattbyrðina á lágtekjufólki. Það gerðist með því að skattleysismörkin fylgdu ekki verðlagsþróun, hvað þá launaþróun. Ofan af þessu þarf að vinda. Hitt er rétt sem hér var sagt, að það er mikilvægt að skoða vandlega stöðu venjulegra heimila og þau eru ekki aflögufær um auknar byrðar. Það verður því mjög erfitt að útfæra þetta þannig að við höfum tekjur til að reka samneysluna, til að borga óráðsíuskuldir Sjálfstæðisflokksins og að við getum aflað þeirra án þess að byrðarnar leggist of þungt á fólk sem á í miklum erfiðleikum fyrir. Þetta verður gríðarlega snúið verkefni sem verður vonandi í höndum einhverra manna sem hafa bæði pólitíska sýn og bein til að ráða við það.