Seðlabanki Íslands

Fimmtudaginn 26. febrúar 2009, kl. 12:04:32 (4280)


136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[12:04]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að hæla hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ræðu sína. Hann hefur verið samkvæmur sjálfum sér svo til allan tímann við meðferð þessa máls. Hann hefur haft þá skoðun að frumvarp um Seðlabankann ætti að geyma annað efni en raun ber vitni. Hv. þingmaður hefur talað um það frá upphafi að í stað þess að fara í breytingar á lögum um Seðlabankann hefði átt að skrifa ný allsherjarlög um Seðlabankann, jafnvel sameina Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann og fleiri atriði.

Staðreyndin er hins vegar sú að það frumvarp sem hér liggur fyrir er einfalt, það fjallar um tvö meginatriði. Annars vegar breytingu á yfirstjórn Seðlabankans og hins vegar stofnun peningastefnunefndar og reynt er að tryggja að ákvarðanir þeirrar nefndar verði opinberar og gagnsæjar. Það er lykilatriði.

Þetta eru þau tvö meginatriði sem hv. þingmaður hefur allan tímann verið á móti eða svo til allan tímann, því að eftir afgreiðslu í 2. umr. samþykkti hv. þingmaður þær tillögur. En hann er aftur kominn á sömu braut og hann var í upphafi og er orðinn nokkuð samkvæmur sjálfum sér.

Það sem ég vildi spyrja hv. þingmann út í er sú breytingartillaga sem hér liggur fyrir. Í gegnum tíðina hefur sá er hér stendur lagt til að Alþingi hefði hönd í bagga með skipun hæstaréttardómara og staðfesti skipun hæstaréttardómara. Hv. þingmaður hefur alla jafna talað gegn því, því að hann hefur talið að þar gætu orðið of mikil pólitísk afskipti. Hv. þingmaður leggur hins vegar fram tillögu um að Alþingi staðfesti skipun seðlabankastjóra. Mér þætti vænt um að heyra útskýringar hv. þingmanns á því hvernig á því stendur að ekki væri um pólitísk afskipti ræða við skipun seðlabankastjóra (Forseti hringir.) ef Alþingi staðfesti það en önnur sjónarmið ættu við um skipun hæstaréttardómara.