Kostnaður við loftrýmiseftirlit

Mánudaginn 02. mars 2009, kl. 15:32:17 (4400)


136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

kostnaður við loftrýmiseftirlit.

[15:32]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður vitnar hér í orð mín og skoðanir. Þær eru óbreyttar, ég er enn þeirrar skoðunar að þarna sé hægt að spara umtalsverða fjármuni og er ekki síður áhugasamur um að gera það nú, starfandi sem fjármálaráðherra, en ég var sem þingmaður í stjórnarandstöðu.

Ég hygg reyndar að hv. þingmaður hafi spurt utanríkisráðherra sem málið heyrir undir um þetta og fengið þar þau svör sem ég veit að eru rétt, að málið er í skoðun af hálfu hæstv. utanríkisráðherra — með því hugarfari að sjálfsögðu að þarna sé mögulega hægt að spara peninga. Við erum áhugasamir um það báðir, ég og utanríkisráðherra, að finna slíkar leiðir. Það þurfum við öll að vera, hv. þingmenn, því að hafi einhvern tímann verið þær aðstæður uppi á Íslandi að ríkissjóður þurfi að eiga vini er það einmitt núna.

Varðandi loftrýmiseftirlit, æfingaflug eða hvað menn vilja kalla það, þessa leiki þarna suður frá, er það allt heldur í rétta átt því að ég hef ástæðu til að ætla að það verði minna úr slíku en áform stóðu til. Má ég þá minna hv. þingmann á að hann sem stuðningsmaður fyrri ríkisstjórnar afgreiddi þau fjárlög og studdi, ef ég veit rétt, þar sem þessi útgjöld voru heimiluð. Þau eru í gildi í dag en allt sem til sparnaðar má verða kemur okkur til góða. Ég hygg að kostnaður vegna loftrýmiseftirlits, ef einhver verður að ráði, verði mun minni en gert var ráð fyrir þegar fjárlög voru afgreidd hér. Ég spurði nefnilega utanríkisráðherra að því hversu dýr heimsókn Dananna yrði, ef ekki væri hægt að sleppa við hana, og fékk þau svör að þar yrði um fáeinar milljónir króna að ræða og að jafnvel falli eitthvað niður af því loftrýmiseftirliti sem áður var áformað að yrði á þessu ári.

Ég vona að ég geti glatt hv. þingmann með þessum upplýsingum. Að öðru leyti er málið í höndum hæstv. utanríkisráðherra og ég legg til að í næsta sinn sem hv. þingmaður spyr um þetta spyrji hann utanríkisráðherra aftur.