Staða landbúnaðarins

Mánudaginn 02. mars 2009, kl. 16:01:49 (4409)


136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

staða landbúnaðarins.

[16:01]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Treystum á landbúnaðinn, er yfirskrift búnaðarþings og það kjörorð hafði formaður Bændasamtakanna yfir við setningu þess í gær. Sjaldan eða aldrei hefur landbúnaður verið okkur eins mikilvægur og þessa dagana og í næstu framtíð. Nú er það ekki aðeins þjóðin sem hefur gert sér grein fyrir mikilvægi landbúnaðar, fæðuöryggis, matvælaframleiðslu og matvælaiðnaðar, heldur einnig einstakir stjórnmálamenn, sem á undanförnum árum hafa gert sitt til að þrengja stöðu landbúnaðarins með því að opna fyrir frjálsan innflutning og flytja frumvarp um aðlögun að matvælalöggjöf Evrópusambandsins, sem þýðir innflutning á hráu kjöti og kjötvörum. En það var gert í tíð fyrrverandi ríkisstjórna, fyrst Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og svo Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.

Kannski var það eina frumvarpið, sem fyrrverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar flutti um landbúnað, þetta um innflutning á hráu kjöti. En nú er staðan gjörbreytt. Meira að segja landbúnaðarráðherra sjálfs nýfrjálshyggju ríkisins Bandaríkjanna hvatti nýverið til fjölgunar bænda, smábúa, fjölskyldubúa og þess að efla og styrkja þarlenda matvælaframleiðslu. Þar er líka framtíð íslensks landbúnaðar og á þessum krappa tíma á íslenskur landbúnaður kannski sína möguleika, bæði í fjölbreyttri framleiðslu og nýtingu auðlinda og matvælaiðnaði. Það sparar gjaldeyri að framleiða mat innan lands.

Einnig var ánægjulegt að heyra þingmenn taka vel og afdráttarlaust undir tillögu okkar Vinstri grænna um áburðarverksmiðju, (Forseti hringir.) sem ríkið gæti átt hlut að. Þegar ég heyri svona góðar undirtektir vona ég að starfræksla áburðarverksmiðju hefjist sem fyrst hér á landi, en það er mjög brýnt (Forseti hringir.) mál.