Opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og verðbréfaviðskipti

Þriðjudaginn 03. mars 2009, kl. 15:35:33 (4486)


136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og verðbréfaviðskipti.

358. mál
[15:35]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að endurtaka það sem ég sagði áðan, um samhengi hlutanna og stöðuna í íslensku samfélagi og eðli þeirra frumvarpa sem lögð eru fyrir þingið. Í þessu tilviki erum við að fjalla sérstaklega um gagnsæi í störfum Fjármálaeftirlitsins og ég fagna því. Ég verð þó að segja eins og áður að mér finnst að við þyrftum að taka önnur mál fyrir en það breytir því ekki að það er hið besta mál að koma með frumvarp sem er til þess fallið að auka gagnsæi í starfsemi Fjármálaeftirlitsins.

Mig langar aðeins að víkja að tvennu. Annars vegar að þingsályktun um samskipti okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þar kemur fram í fylgiskjali í 27 liðum hvernig ríkið, okkar íslenska ríki ætlar að vinna með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og í 10. lið er sérstaklega fjallað um eftirlit með fjármálastarfsemi en þar segir, með leyfi forseta:

„Í framhaldinu munum við endurskoða alla regluumgjörð fjármálastarfsemi og framkvæmd bankaeftirlits til að efla viðbúnað gegn hugsanlegum fjármálakreppum í framtíðinni.“ — Þetta eru áætlanir en þar segir enn fremur: „Við munum ráða reyndan bankaeftirlitsmann til að fara yfir regluverkið og starfshætti við bankaeftirlit og leggja til nauðsynlegar breytingar. Þessi ráðgjafi mun einkum beina sjónum að reglum um lausafjárstýringu, lán til tengdra aðila, stórar einstakar áhættur, krosseignatengsl og hagsmunalegt sjálfstæði eigenda og stjórnenda. Hafi fyrrverandi yfirstjórnendur og helstu hluthafar í yfirteknu bönkunum gerst sekir um afglöp í rekstri eða misnotkun á bönkunum eiga þeir ekki að gegna sambærilegu hlutverki næstu þrjú árin. Mat þetta, sem gert verður opinbert, á að liggja fyrir í lok mars 2009. Við munum ræða fyrir fram sérhverja breytingu á áformum okkar í þessu efni við fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.“

Þarna kemur fram að í lok þessa mánaðar sé ætlunin að þetta mat verði gert opinbert.

Hins vegar langar mig að tala aðeins um annað mál og vitna aftur í, eins og ég gerði í fyrri ræðu minni í dag, Mats Josefsson og skýrslu nefndar sem hann stýrir um uppbyggingu og enduruppbyggingu bankakerfisins, endurreisn bankakerfisins. Í þeirri vinnu sem Mats Josefsson stýrir kemur fram að alþjóðlegur sérfræðingur vinni að endurskoðun reglna um bankastarfsemi og eftirlit með henni með það að markmiði að styrkja varnir gegn hugsanlegum nýjum áföllum. Það kemur einnig fram í skýrslu þessarar nefndar að höfuðáhersla í endurskoðuninni sé á stjórnun greiðslugetu og áhættumats, tengd lán, varnarleysi, krosseignatengsl í eignarhald og rétta eða eðlilega stöðu eigenda og stjórnenda og að endurskoðuninni verði lokið í mars. Þannig að þar má sjá að verið er að útfæra aðeins þá hugsun sem fram kemur í 10. lið viljayfirlýsingar um áform íslenskra stjórnvalda vegna fjárhagslegrar fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Það er mjög gott mál að sinna því að skoða hvernig getum við aukið ekki bara gagnsæi heldur líka aukið og eflt eftirlit með fjármálastarfsemi í framtíðinni.

Mig langar að nota tækifærið og spyrja hæstv. bankamálaráðherra og viðskiptaráðherra í tengslum við þennan 10. lið um áform íslenskra stjórnvalda: Hvernig miðar í endurskoðun á eftirlitsstarfseminni?

Að lokum nefni ég aftur að ég fagna frumvarpinu sem er hér til umfjöllunar, það mun efla gagnsæi, og ég fagna því sérstaklega að Fjármálaeftirlitinu er gert að birta opinberlega stefnu sína. Ég hef því bara gott eitt um frumvarpið að segja en ég hefði gjarnan viljað sjá önnur frumvörp, þ.e. þau sem mega efla bankastarfsemina í landinu og þar með atvinnulíf og stöðu heimilanna í landinu.