Tillögur nefndar um endurreisn bankakerfisins

Miðvikudaginn 04. mars 2009, kl. 15:07:57 (4585)


136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

tillögur nefndar um endurreisn bankakerfisins.

320. mál
[15:07]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðfinna S. Bjarnadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil taka fram að ég hef kynnt mér mjög vel verkefni ríkisstjórnarinnar og ég hef líka kynnt mér vel þær tillögur sem þessi nefnd skilaði. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég vil líka taka fram að ég óttast að núverandi ríkisstjórn muni ekki sinna endurreisn bankakerfisins og að sú skelfilega bið sem ég nefndi í upphafi máls míns áðan verði enn lengri en hún þarf að vera. Búast má við að endurreisn bankakerfisins bíði því þriðju ríkisstjórnarinnar sem starfar á þessu ári eftir kosningar.

Þetta er bagaleg staða og ég trúi því ekki að ríkisstjórnin ætli ekki að einbeita sér að endurreisn bankakerfisins. Hún gerir það ekki. Hæstv. ráðherra nefndi sérstaklega uppbyggingu eignaumsýslufélaga. Þessi eignaumsýslufélög voru starfrækt í Bandaríkjunum á níunda áratugnum, á Norðurlöndum á tíunda áratugnum, víða um lönd á undanförnum árum og já, það má ýmislegt læra af því. Það er útfærslan á þessum umsýslufélögum sem máli skiptir vegna þess að það þarf að huga að lagalegu umhverfi, fjármögnun og að stjórnun svona fyrirtækja. Við þurfum að vera afar snjöll því að ekkert annað kerfi hefur hrunið á þann máta sem okkar kerfi hrundi.

Ég sé svo mörg tækifæri, hæstv. forseti, í þeirri stöðu sem nú er. Ég sé endalaus tækifæri fyrir okkur og þess vegna er grátlegt að horfa upp á að tillögurnar eru afar loftkenndar — mig langar helst að vitna í það sem stendur í IV. kafla í skýrslu nefndarinnar vegna þess að það er svo ótrúlega rýrt, en þar er fjallað um eignaumsýslufélögin, en tími gefst ekki til þess.