Hólaskóli -- Háskólinn á Hólum

Miðvikudaginn 04. mars 2009, kl. 15:46:22 (4602)


136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

Hólaskóli – Háskólinn á Hólum.

347. mál
[15:46]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég beini hér spurningum til hæstv. menntamálaráðherra varðandi Hólaskóla, þ.e. Háskólann á Hólum. Háskólinn á Hólum er mjög mikilvæg stofnun og þar er rekin mjög myndarleg starfsemi. Þar hefur átt sér stað mikil uppbygging á undanförnum árum, bæði heima á Hólum og á Sauðárkróki í tengslum við fiskeldisrannsóknir og -kennslu. Skólinn hefur reynst mjög dýrmætur fyrir landbúnaðinn í landinu, uppbyggingu ferðaþjónustu og ekki síst fyrir Skagafjörðinn sem heimahérað.

Allt of mörg undanfarin ár hefur skólinn glímt við rekstrarvanda sem tengist mikið þeirri uppbyggingu sem þar hefur átt sér stað. Þar hefur mikil vinna verið unnin og margar tillögur komið fram um lausnir á því máli á undanförnum árum. Í tengslum við það hefur verið unnið að tillögugerð og umfjöllun um breytingar á rekstrarformi skólans. Ég hygg að komið hafi fram tillögur um það á síðasta ári þar sem fjallað var um að breyta rekstrarforminu í sjálfseignarstofnun.

Á síðasta ári var einnig unnið að lausnum á rekstrarvandanum. Samþykktar voru fjárheimildir í fjáraukalögum fyrir árið 2008 til að taka á halla sem safnast hafði upp í rekstrinum og ef ég man rétt var bætt við fjárheimildir í fjárlögum 2009.

Hins vegar er það svo, virðulegur forseti, að samhliða fjárhagsvanda skólans hafa ýmsir kvartað yfir því, a.m.k. í mín eyru, að illa gangi að fá uppgjör á skuldum skólans gagnvart viðkomandi aðilum. Það er auðvitað ekki gott, hvorki fyrir skólann né viðkomandi aðila. Það er mjög mikilvægt að fá botn í þessi mál öll sem fyrst. Ég geri mér hins vegar fulla grein fyrir því að núv. hæstv. menntamálaráðherra hefur ekki mikinn tíma til þess en ég hygg þó að fyrir liggi ýmiss konar vinna og gögn og áform í menntamálaráðuneytinu varðandi þessi mál.

Ég leyfi mér að beina tveimur spurningum til hæstv. ráðherra:

1. Hvað líður fyrirhuguðum breytingum á rekstrarformi Hólaskóla – Háskólans á Hólum?

2. Hvenær mega kröfuhafar vænta uppgjörs á vangreiddum skuldum skólans?