136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[11:23]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Vegna þeirrar fyrirspurnar sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson beindi til mín um það hvort komið hefði til umfjöllunar á vettvangi nefndarinnar að kjararáð fjallaði um öll kjör þingmanna, þar með talin lífeyriskjör og -réttindi, er rétt að minna á það sem kom fram við 2. umr. málsins, að það var rætt á vettvangi nefndarinnar, já. Þau sjónarmið komu fram og m.a. var rætt við formann kjararáðs sem kom sem gestur á fund nefndarinnar og kom fram við 2. umr. þegar ég gerði grein fyrir nefndaráliti og þeim breytingartillögum sem nefndin gerði.

Um þetta þarf kannski ekki mikið að segja meira. Það er alveg ljóst að í lögunum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins er ekki gert ráð fyrir að þingmenn og ráðherrar geti verið aðilar að þeim lífeyrissjóði. Ef þingmenn og ráðherrar eiga að fara inn í A-deild LSR eins og hér er gert ráð fyrir þarf að veita heimild til þess í lögunum eða kveða á um það í lögunum um LSR. Það er alveg ljóst. Jafnvel þótt kjararáð tæki ákvörðun um að þingmenn og ráðherrar ættu að greiða í A-deild LSR getur kjararáð ekki ákveðið eða skipað þeim málum í lögum. Það verður Alþingi að gera. Þess vegna er þessi lagabreyting óhjákvæmileg.

Aðalatriðið að mínu mati er að kjararáð hafi yfirsýn yfir kjör þeirra sem ráðið fjallar um og geti þannig tekið mið af þeim, hvort sem það eru lífeyriskjör eða önnur kjör. Kjararáð hafi yfirsýn yfir það og hafi það til hliðsjónar þegar það ákvarðar laun þingmanna.

Einnig er rétt að minna á að á þessu ári, samkvæmt lögum sem Alþingi setti í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar, er kjararáði óheimilt að breyta (Forseti hringir.) kjörum þingmanna á þessu ári.