136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[11:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, það er gott að við erum að hverfa frá þessu ógagnsæja forréttindakerfi sem við vorum í. En í gær ákvað hv. þingmaður að greiða atkvæði og velja sér lífeyrissjóð — og hann valdi þann besta sem til er í landinu, hann valdi A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Ég spyr hv. þingmann: Hvers vegna í ósköpunum gerði hann það? 80% af kjósendum í landinu, og sennilega hærra hlutfall af kjósendum hv. þingmanns af því að það eru færri opinberir starfsmenn úti á landi en í Reykjavík, það er bara einu sinni þannig, því miður — er gert að greiða í lífeyrissjóði sem eru með miklu lakari lífeyrisrétt. Iðgjald atvinnurekandans er 8% í staðinn fyrir 11,5% í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, sem sennilega fer að hækka. Og hv. þingmaður valdi í gær besta lífeyrissjóðinn á meðan öðru fólki í landinu er gert að greiða í ákveðinn lífeyrissjóð og getur ekki valið eitt eða neitt.