Virðisaukaskattur

Föstudaginn 06. mars 2009, kl. 13:30:44 (4813)


136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[13:30]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég sakna þess að sjá enga stjórnarþingmenn í salnum, eingöngu þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem eru jú ágætir. En ég hefði gjarnan viljað sjá hér einhverja nefndarmenn frá stjórnarflokkunum sem leggja fram þetta mál.

Hér ræðum við mál sem er dæmi um það sem við getum kallað gott mál, dæmi um það sem við ættum að vera að eyða tíma okkar í á þinginu þessa dagana. Þetta er mál sem eykur atvinnusköpun og verðmætasköpun í samfélaginu og í því felast aðgerðir í þágu heimilanna, í þágu fyrirtækjanna. Þetta er mál sem er þáttur í að vinna gegn atvinnuleysisbölinu sem er mesta böl sem samfélagið á við að etja um þessar mundir. Þetta er mál sem við eigum að eyða tíma okkar í en það eru aðeins nokkrir dagar eftir af þessu þingi. Það er betra og ánægjulegra að taka þátt í umræðu um uppbyggileg atriði í stað þess að ræða grundvallaratriði varðandi stjórnarskrá og kosningalöggjöf sem þurfa lengri og ítarlegri umfjöllun og aðkomu allra flokka í ferlinu. Þar er óttaleg hraðsuða á ferðinni hjá stjórnarflokkunum.

Það er samstaða um þetta mál og flokkar eins og Framsóknarflokkurinn, sem styður þessa ríkisstjórn falli, Frjálslyndi flokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa boðið þessari hæstv. ríkisstjórn að greiða fyrir málum sem þessu í þinginu, fyrir málum sem skipta heimilin og atvinnulífið máli og eykur verðmætasköpun í samfélaginu. Það verður ekki skilið á milli ástands í atvinnulífi og öryggis heimilanna. Það er samofið og getur hvorugt gengið vel án sæmilegra aðstæðna á báðum stöðum. Atvinnulíf blómstrar ekki ef óöryggi og örvænting hrjá einstaklingana og heimilin og heimilin blómstra ekki ef fólk hefur ekki atvinnu og sér tilveru sinni ógnað með allri þeirri lömun sem atvinnuleysi hefur í för með sér.

Í umræðu um þetta mál hafa komið fram mikilvægar breytingar á því í meðförum þingsins sem er eðlilegt þó að vissulega hefði maður viljað sjá þær ganga lengra að einhverju leyti. Það er mjög mikilvægt að inn í frumvarpið skyldi bætt byggingu frístundahúsa vegna þess að við erum í þeirri stöðu að efnahagshrunið varð nánast yfir nótt og afleiðingar þess eru ógurlegar. Það er fjöldinn allur af ófrágengnum byggingum sem eru komnar vel á veg en erfitt er að ljúka við og að selja við þær aðstæður sem uppi eru. Þetta getur vonandi orðið til þess að hvetja til aukinnar starfsemi og frágangs á þeim byggingum þannig að þau þjóni tilgangi sínum.

Fyrir liggur breytingartillaga frá hv. þingmönnum Gunnari Svavarssyni og Árna M. Mathiesen. Eins og fram hefur komið eru ákveðnir þættir sem hugsanlega mætti ganga lengra í eins og tillaga þeirra gerir ráð fyrir og mun ég styðja hana. Í svo góðu máli er mjög mikilvægt að málinu sé lokið fullkomlega þannig að það þjóni tilgangi sínum. Af minna tilefni hefur hæstv. forsætisráðherra séð ástæðu til þess að stöðva störf þingsins tímabundið til þess að undirbúa mál. Kannski er réttlætanlegt að beita slíkum vinnubrögðum nú, að fresta örlítið umræðu til að setjast yfir þau atriði sem komið hafa fram við 3. umr. og eru til bóta í þessu ágæta máli. Við gætum þá lokið því alveg síðar í dag eða í kvöld.

Aðeins hefur verið rætt um þá vinnu sem fer fram við viðhald bygginga og nýbygginga úti í bæ. Umhverfið sem byggingariðnaðurinn starfar í er auðvitað orðið það tæknivætt að margt af þeirri vinnu sem vinna þarf og með sem hagkvæmustum hætti, fer fram á verkstæðum úti í bæ. Framleiðsla glugga í nýbyggingar hefur verið nefnd sem dæmi og af því að sú vinna fer fram á verkstæði úti í bæ er hún undanskilin í þessari tillögu og er það miður. Við hefðum þurft að ganga alla leið og loka málinu.

Það er eitt sem ég velti fyrir mér og hefði viljað fá svar við frá nefndarmönnum í nefndinni en það er sú missögn sem er í frumvarpinu og kveður á um að við nýbyggingar skuli endurgreiddur virðisaukaskattur af þeirri vinnu sem fer fram á byggingarstað. Þar eru þessir gluggar undanskildir en viðhald þeirra er ekki nefnt þannig að ef einhver skiptir um glugga í húsinu sínu og gerir það þannig að betri eign, fæst virðisaukaskattur væntanlega endurgreiddur af þeirri vinnu. Það er ekki hægt að lesa þennan texta öðruvísi.

Megintilgangurinn með frumvarpi þessu er að efla atvinnustig í þeim greinum þar sem stöðnunin sem er í samfélagi okkar er einna mest. Ástandið er hvað erfiðast í byggingargeiranum. Við erum að reyna að koma hjólunum aftur af stað með þessari umræðu og afgreiðslu frumvarpsins. Það er annað sem er mikilvægt og er sérstaklega nefnt í greinargerð með frumvarpinu en það er að þetta muni draga úr svokallaðri svartri atvinnustarfsemi. Ég er alveg klár á því að þetta mun draga úr svartri atvinnustarfsemi eins og allar skattalækkanir sem að þessu snúa, gera. Þær eru til þess fallnar að minnka hvatann til þess að stunda svarta atvinnustarfsemi og skjóta peningum undan skatti. Ég held að það sé ekki síður mikilvægt til lengri tíma litið í þessu máli.

Það hefur sýnt sig að skattalækkanir hækka í mjög mörgum tilfellum þegar til lengri tíma er litið og auka tekjur ríkissjóðs vegna þess að þá kemur meira upp á yfirborðið. Þegar skattheimtan er sanngjörn verður meiri vilji til að borga skattana. Við höfum dæmi um það. Þá veltir maður fyrir sér gildistíma breytinganna þar sem reiknað er með að þær falli úr gildi 1. janúar 2011. Með öðrum orðum hljótum við með því að senda þau skilaboð til samfélagsins að við viljum auka aftur svarta atvinnustarfsemi, eða hvað? Ef aðgerðinni er ætlað að draga úr svartri atvinnustarfsemi hlýtur afnám hennar að verða til þess að auka aftur svarta atvinnustarfsemi.

Það er mikilvægt að umræða skuli eiga sér stað um svo gott mál vegna þess að undirbúningur verður að vera góður í málum sem þessu. Hann verður auðvitað að vera góður í öllum málum en það hefur aðeins verið nefnt hér að við værum að drepa málum á dreif með því að ræða um hluti sem mættu jafnvel verða enn betri. Ég sé fulla ástæðu til þess að við gefum okkur allan þann tíma sem við höfum til þess og að þær góðu hugmyndir sem fram hafa komið nú við 3. umr. málsins fái mikla athygli. Eins og ég sagði áðan hefur hæstv. forsætisráðherra beitt sér fyrir því að þingstörf stöðvist tímabundið af minna tilefni en þessu, á meðan verið er að undirbúa mál. Mikilvægt er til að svona mál nái markmiði sínu vel og örugglega að enginn ágreiningur sé um einhver atriði í því þegar upp er staðið.

Þetta er dæmi um gott mál sem við eigum að eyða tíma þingsins í núna, mál sem eflir atvinnustarfsemi í landinu, eyðir atvinnuleysisbölinu og eflir atvinnu í landinu. Eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir talaði um í ræðu sinni fyrr í vikunni er þetta eitt af þeim málum sem við sjálfstæðismenn viljum gera hæstv. ríkisstjórn tilboð um að ljúka í stað þess að eyða tíma okkar í mál sem þurfa miklu lengri og ítarlegri umfjöllun.

Hv. þm. Jón Bjarnason kom inn á það í ræðu sinni áðan að þetta frumvarp væri það fyrsta frá núverandi ríkisstjórn sem fram væri komið og væri að afgreiðast og stæði vörð um velferðarkerfið. Það er heilmikið til í því og segir mikið um vinnubrögð þessarar ríkisstjórnar, að ekki skuli meira vera komið fram á stjórnartíma hennar þrátt fyrir öll fyrirheitin. Atvinnumálin skapa velferðarkerfið. Öflug atvinnustarfsemi færir okkur það fjármagn og þá atvinnu sem við þurfum til þess að halda uppi sterku og öflugu velferðarkerfi, þar verður ekki skilið á milli.

Þá komum við að því vandamáli sem þessi ríkisstjórn stendur frammi fyrir og sem við sjálfstæðismenn stóðum frammi fyrir í síðustu ríkisstjórn með samfylkingarmönnum. Við komum að grundvallaratriði um stefnu í atvinnumálum. Við sjáum í verkum hæstv. ríkisstjórnar hvernig gengur þegar kemur að mikilvægum atvinnumálum. Við sjáum það endurspeglast í umræðu um álver í Helguvík þar sem samstaðan er engin. Þetta er nákvæmlega það sama og við áttum við að etja, sjálfstæðismenn, (Gripið fram í.) í tíð síðustu ríkisstjórnar. Okkur gekk ekkert með Samfylkinguna þegar kom að atvinnumálum og stefnuuppbyggingu í atvinnumálum. Þar er stefna okkar sjálfstæðismanna skýr, virðulegi forseti, hún er skýrari en annarra stjórnmálaflokka á Alþingi. Hún byggir á því að nýta náttúruauðlindir lands og sjávar og því að byggja upp sterka atvinnuvegi. Þessar grunnstoðir atvinnulífsins munu leiða af sér sprotafyrirtæki, hátækniiðnað og annað sem þarf til til að byggja hér upp mannvænlegt samfélag.