Virðisaukaskattur

Föstudaginn 06. mars 2009, kl. 14:30:45 (4825)


136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[14:30]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram sem hefur verið mjög málefnaleg og gagnleg, enda um mjög mikilvægt málefni að ræða sem snýst um það að draga úr skattheimtu gagnvart þeim sem standa í framkvæmdum. Það er mjög mikilvægt að leita leiða til þess núna við þær aðstæður í efnahagsmálum og atvinnumálum sem við búum við. Það er sem sagt verið að festa í lög ríkari heimildir til að endurgreiða virðisaukaskatt eins og hér er fjallað um.

Það sem leiddi mig til að taka þátt í umræðunni var það að á sama tíma og hér er mikil samstaða innan þingsins um þessa skattalækkun, endurgreiðslu á virðisaukaskattinum, þá les maður um það í dagblöðum í dag að helstu ráðgjafar ríkisstjórnarinnar og ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu þar með eru að fjalla um það á fundum á vegum Samfylkingarinnar væntanlega að hækka eigi skatta. Leiðbeiningarnar sem koma úr þeirri átt og skilaboðin þaðan eru þau að hækka skuli skatta.

Ég held að Alþingi þurfi að gæta sín mjög á því sem hér er á ferðinni. Samkvæmt þessu, og að því er virðist í boði fjármálaráðherra, gengur ráðuneytisstjórinn í fjármálaráðuneytinu um í þjóðfélaginu og boðar skattahækkanir á sama tíma og við, löggjafarsamkoman, leggjum á ráðin um skattalækkanir til að koma hjólum atvinnulífsins í gang og fá fólk til að fjárfesta og til að koma í veg fyrir undanskot í skattkerfinu sem ég hélt að viðkomandi ráðuneytisstjóri væri alveg sérstakur, og vonandi hæstv. ráðherra líka, áhugamaður um. Það er því ekki allt sem sýnist í þessu hjá ríkisstjórninni.

Það er líka ástæða til af þessu tilefni, vegna þess að hér er um mjög mikilvægt og gott mál að ræða, að gæta þess að það verði ekki eyðilagt með því að haldið verði áfram á einhverjum öðrum vettvangi að skattleggja fólk sem vill leggja hart að sér með aukinni tekjuöflun til að geta fjárfest í endurbótum og viðgerðum á eigin húsnæði.

En það er fleira sem rekur á fjörurnar þessa dagana. Það verður auðvitað að líta til þess að þetta eitt út af fyrir sig dugar ekki og því er ástæða til að vitna til þess sem kemur fram á heimasíðu eins af forustumönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Svandísar Svavarsdóttur, sem skrifar um það 5. mars á heimasíðu sinni að forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar hljóti að vera að snúa hjólum efnahagslífsins af stað með því að gera bankana starfhæfa, „gera bankana algerlega starfhæfa“, svo vitnað sé nákvæmlega í það sem hún segir, en það eru þeir engan veginn. Þessi forustumaður, sem býður sig nú fram til þings á vegum Vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu og ætlar sér stóra hluti, hefur komið auga á þetta þrátt fyrir að ríkisstjórnin virðist ekki hafa komið auga á að bankarnir eru ekki starfhæfir. Það hefur ekki verið gert nægilega mikið til að tryggja að svo sé og svo veri, m.a. með því að hræra í bankaráðum og flæma burtu þá sem tóku að sér í góðri trú að fást við það erfiða verkefni að endurreisa bankana sem hrundu. Þetta vildi ég nefna alveg sérstaklega vegna þess að þetta er mjög alvarlegt mál á sama tíma og við erum að beita okkur á Alþingi fyrir skattalækkunum, endurgreiðslu á virðisaukaskatti í þeim tilgangi að bæta úr fyrir þá sem vilja fjárfesta í atvinnustarfseminni með þeim hætti.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu að öðru leyti en vildi samt sem áður beina þeirri fyrirspurn til formanns nefndarinnar sem fjallaði um þetta mál og inna hann eftir því hvort nefndin hafi eitthvað fjallað um sérstöðu þess þáttar í byggingarstarfseminni sem er einingahúsaframleiðsla og einingahúsaverksmiðjur en aðilar þar hafa lýst óánægju sinni með endurgreiðslu á þessum sköttum og það væri fróðlegt að heyra hvort hafi verið fjallað um það sérstaklega.