Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 10. mars 2009, kl. 16:27:57 (5079)


136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:27]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef hlustað með athygli á ræðu hv. þm. Björns Bjarnasonar. Ég geri mér grein fyrir hans löngu þingreynslu og þekkingu á þessum málum. Það voru aðeins spurningar sem mig langar að bera fram við hv. þingmann.

Við 1. gr. í þessu frumvarpi til stjórnarskipunarlaga er lögð áhersla á að náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkarétti séu þjóðareign og ríkið fari með forsjá þeirra vörslu og ráðstöfunarrétt og hafi eftirlit með nýtingu þeirra í umboði þjóðarinnar eftir því sem ákveðið er í lögum. Mér fannst ekki alveg koma skýrt fram í máli hv. þingmanns hvort hann væri á móti þessu eða hvort honum fannst þetta eðlilegt. Ég spyr þess vegna hv. þm. Björn Bjarnason: Er hann ekki sammála því meginmarkmiði sem þarna er sett fram og þarna er kveðið á um? Ég tel mjög mikilvægt að náttúruauðlindir þjóðarinnar, sem ekki eru háðar einkaeignarrétti, séu varðar í stjórnarskrá sem þjóðareign.

Það á sama á við varðandi breytingar á stjórnarskránni og að það skuli vera Alþingi sem skuli hafa fyrsta og síðasta orðið í þeim efnum, ef ég skildi mál hv. þingmanns rétt. Vantreystir hv. þingmaður þá þjóðinni að taka þessa lokaákvörðun eins og gert er ráð fyrir að þarna sé um að ræða, að það sé í rauninni meiri hluti þjóðarinnar sem þarna taki ákvörðun? (Forseti hringir.) Og eitt til viðbótar, að það sé þá sjálfstæð þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrárbreytingar en hún sé ekki tengd beint alþingiskosningum.