Hagsmunir Íslands í loftslagsmálum

Þriðjudaginn 10. mars 2009, kl. 20:02:08 (5104)


136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

370. mál
[20:02]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni fyrir að gefa skýrslu um að hann hafi fylgst með umræðum um breytingar á stjórnarskránni. Hann er einn af flutningsmönnum þess frumvarps og ég hefði ímyndað mér að hann vildi taka þátt í umræðum en ekki bara hlusta, þó að það sé mikilvægt að hlusta á það sem við höfum fram að færa. Ég hefði viljað að hv. þingmaður gerði grein fyrir afstöðu sinni, gerði grein fyrir þeim tillögum sem hér eru sem eru mjög umfangsmiklar þannig að hægt væri að ræða við hann. Til þess erum við hér á þinginu. Við erum hér til þess að skiptast á skoðunum, ná bestu niðurstöðu. En það er gott að hv. þingmaður hefur heyrt umræðurnar en ég geri ráð fyrir því að allir þingmenn séu sammála um það (Forseti hringir.) að þingmenn eigi að vera hér í umræðum.