Tekjuskattur

Fimmtudaginn 12. mars 2009, kl. 14:32:32 (5306)


136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

tekjuskattur.

410. mál
[14:32]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um tekjuskatt.

Í frumvarpi þessu eru lagðar til afturvirkar breytingar á lögum um tekjuskatt í þeim skilningi að þær ganga út á hækkun á viðmiðunarfjárhæðum vaxtabóta sem koma til útgreiðslu á þessu ári. Vegna mikilla breytinga, svo sem á gengi krónunnar, aukinnar verðbólgu á undanförnum mánuðum, hás vaxtakostnaðar og af fleiri ástæðum hefur vaxtabyrði heimilanna vaxið gríðarlega og vaxtakostnaður ekki síst og er þessari aðgerð, sem er einskiptisaðgerð og hluti af aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar til að aðstoða heimili og atvinnulíf í erfiðleikunum, ætlað að létta undir með heimilunum sérstaklega við álagningu skatta á árinu 2009 vegna tekna ársins 2008.

Hámarksupphæð greiddra vaxta sem mynda viðmiðunarfjárhæðina eða andlagið og er grunnur vaxtabótanna svo og vaxtabótanna sjálfra verður hækkuð um 25% og er það til viðbótar þeirri 5,7% hækkun sem varð samkvæmt forsendum fjárlaga ársins 2009. Samtals munu því vaxtabætur hækka milli ára um 32% frá því sem gilti við ákvörðun þeirra á árinu 2008. Kostnaður af þessari breytingu er áætlaður um 2 milljarðar kr.

Verði frumvarpið að lögum má búast við að vaxtabótaþegum fjölgi um tæp 2% umfram það sem annars hefði orðið samhliða því að meðalbætur hækka um nálægt 25%. Þá munu hámarksbætur einstaklinga hækka úr tæpum 190 þús. kr. í rúmar 237 þús. kr. eða um 47 þús. kr. Hámarksbætur einstæðra foreldra munu hækka úr tæpum 245 þús. kr. í rúmar 305 þús. kr. eða um 60 þús. kr. og hámarksbætur hjóna og sambúðarfólks munu hækka úr rúmlega 314 þús. kr. í rúmar 390 þús. kr. eða um 76 þús. kr.

Að sjálfsögðu er þessi niðurstaða óvissu háð af mörgum ástæðum og sú óvissa er meiri nú en oftast áður vegna ástæðna sem allir þekkja og þarf ekki að fara í grafgötur um.

Ekki er gert ráð fyrir þessum viðbótarútgjöldum í fjárlögum fyrir árið 2009 en reiknað er með að vaxtabætur nemi um 7,8 milljörðum kr. á þessu ári í fjárlögum yfirstandandi árs áður en tekið er tillit til þeirra breytinga sem hér eru kynntar. Á móti kemur að væntanlegar skatttekjur ríkissjóðs vegna úttektar séreignarlífeyrissparnaðar munu nýtast á móti þessari útgjaldaaukningu og væntanlega gera nokkuð betur þannig að áætlanir um ríkisbúskapinn á þessu ári eiga ekki að raskast af þessum sökum og þannig hafa þessar breytingar verið kynntar þeim sem málið varðar og kynntar þeim aðilum sem við erum í samstarfi við um framvindu efnahagsmála á Íslandi um þessar mundir. Um þetta þarf ekki að hafa fleiri orð, herra forseti, þessi breyting er eins einföld og hún getur verið og felur í sér þá fjórðungshækkun viðmiðunarfjárhæðar vaxtabóta sem ég hef hér gert ráð fyrir í óbreyttu kerfi að öðru leyti.

Ég legg svo til, herra forseti, að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari.