Gjaldþrotaskipti o.fl.

Föstudaginn 13. mars 2009, kl. 13:57:42 (5363)


136. löggjafarþing — 103. fundur,  13. mars 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[13:57]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er nokkuð umfangsmikið og flókið frumvarp upp á einar 16 eða 18 bls., ef ég man rétt. Þar er gert ráð fyrir því að eftir tiltekinn tíma, ég þori ekki að fullyrða hvort það voru 3, 4 eða 5 ár, verði andvirði íbúðarinnar endurreiknað. Verðmæti íbúðarinnar sem um ræðir, sem veðið stendur fyrir, verði metið og ofan á það verði lögð 10% — þetta er norsk regla sem verið er að fylgja þarna — og það sem umfram stendur af veðinu telst þá einfaldlega tapað. Það getur hins vegar talist til samningskrafna og farið þá inn í almenna greiðsluaðlögun. Reiknað er með, eins og hv. þingmanni er kunnugt um, að eftirstöðvar skuldar falli niður eftir tiltekinn tíma.

Þetta þarf að spila saman og er mjög mikilvægt að fólk átti sig á því að þarna er um hliðstæð úrræði að ræða. Það getur orðið þannig að sá sem í hlut á fari báðar leiðirnar í greiðsluaðlögun veðlána eða eingöngu í almenna greiðsluaðlögun. Það frumvarp sem við fjöllum um hér í dag getur líka gagnast þeim sem þegar eru komnir í gjaldþrotameðferð.