Álit Samkeppniseftirlitsins um Bændasamtökin

Mánudaginn 16. mars 2009, kl. 15:27:13 (5380)


136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

álit Samkeppniseftirlitsins um Bændasamtökin.

[15:27]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég sé í sjálfu sér ekki neitt athugavert við málatilbúnað Samkeppniseftirlitsins í þessu máli og vil færa fyrir því ákveðin rök. Það er auðvitað þannig þegar samtök einyrkja eins og bændur eru yfirleitt koma saman til fundar að þá er það kannski um margt svipað því þegar verkalýðsfélög funda með félagsmönnum sínum, en það er grundvallarmunur þarna á. Verkalýðsbarátta og kjarasamningar falla ekki undir samkeppnislög en starfsemi sem rekin er af einyrkjum, hvort sem þeir eru bændur eða iðnaðarmenn eða einhverjar aðrar stéttir, fellur almennt undir samkeppnislög nema hún sé sérstaklega undanskilin. Nú er það reyndar svo að landbúnaðurinn hefur ákveðnar undanþágur frá samkeppnislögum en landbúnaðurinn hefur ekki almennar undanþágur frá samkeppnislögunum. Landbúnaður heyrir því almennt undir samkeppnislög nema á þeim tilteknu þröngu sviðum þar sem hann er undanskilinn.

Þess vegna hlýtur að gilda það sama um bændur og rakara eða aðra iðnaðarmenn að þeir mega ekki koma saman á fundum til þess að ræða um að hækka verð eða á annan hátt koma sér saman um eitthvað sem telst viðskiptavinum þeirra óhagfellt. Auðvitað kemur það ekki í veg fyrir að menn geti rætt um almenn hagsmunamál á fundum og það er ágætt að þeir geri það fyrir opnum tjöldum eins og Bændasamtökin gerðu í þessu tilfelli. En þeir verða að gæta sín á því að leiðast ekki út í einhvers konar samráð um verð eða annað sem kemur niður á samkeppni á viðkomandi sviði.