Vextir og verðtrygging

Þriðjudaginn 17. mars 2009, kl. 15:39:20 (5454)


136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

vextir og verðtrygging.

401. mál
[15:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef varað hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson við því áður að vera ekki með svona mikið svartnætti því að málflutningur hans er eitt allsherjarsvartnætti og þeim sem leiðast til þunglyndis í skammdeginu er hætta búin, í alvöru.

En mig langar til að spyrja hv. þingmann, þar sem hann er fyrsti flutningsmaður að þessu frumvarpi, út í 14. gr. laga sem gert er ráð fyrir að breyta. Þar stendur:

„Heimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs …“ o.s.frv. Hagstofa Íslands birtir vísitölu neysluverðs mánaðarlega o.s.frv.

Síðan stendur í þessari tillögu hv. þingmanns:

„Þrátt fyrir ákvæði 14. gr. um að skuldbindingar séu verðtryggðar á grundvelli vísitölu neysluverðs skal engu að síður á tímabilinu frá 1. janúar 2009 til 1. janúar 2010 miða við 5% hámarkshlutfall.“

Mig langar til að vita: Hvað þýðir þetta? Þýðir þetta að frá og með 1. janúar á þessu ári eigi þetta ekki að hækka nema um 5% út árið? Eða hvað? Svo á þetta að fara á biðreikning og ég spyr: Á hvaða kjörum er þessi biðreikningur? Er hann vaxtalaus og verðbótalaus eða er hann með vöxtum og verðbótum?

Þetta skiptir verulegu máli vegna þess að tilkynningar um verðtryggingu eru í alls konar formi. Sumir eru reiknaðir mánaðarlega en þá nær það sjaldnast, sem betur fer, 5%. Stundum er það hálfsárslega, þá geta þeir alla vega náð 5% síðustu mánuði aftur í tímann o.s.frv. Spurningin er sem sé: Á vísitalan í þessum reikningum ekki að hækka meira en um 5% frá ársbyrjun til ársloka eða er þetta hugsað tólf mánuði aftur í tímann?