Vextir og verðtrygging

Þriðjudaginn 17. mars 2009, kl. 15:41:21 (5455)


136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

vextir og verðtrygging.

401. mál
[15:41]
Horfa

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í tillögum okkar miðum við við tímabilið frá 1. janúar 2009 til 1. janúar árið 2010, þannig að það sé alveg ljóst. Hins vegar er útreikningur verðtryggingarinnar tvo mánuði fram í tímann í hvert sinn, ef ég man rétt. Við erum auðvitað að miða við að fólk greiði almennt af lánum sínum mánaðarlega og að það sem út af stendur fari á ákveðinn biðreikning, það sé vissulega skráð á það nafn sem biðreikninginn myndar.

En við leggjum ekki til að slíkur biðreikningur bætist síðar allur við höfuðstól lánsins eða verði allur greiddur upp af viðkomandi einstaklingi. Við leggjum beinlínis til að sá möguleiki verði fyrir hendi að eitthvað af þeim skuldbindingum sem lenda á fólkinu — þær virðast aðeins lenda á almenningi — verði færðar niður. Það er eins og afskrifa eigi skuldir hjá flestum öðrum en hinum almenna borgara, hjá atvinnulífinu, frá gömlu bönkunum yfir í nýju bankana o.s.frv. Við leggjum til að nú snúi menn sér að því að reyna að vernda afkomu fólksins í landinu.