136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[18:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Íbúðalánasjóður á um 400 milljarða í verðtryggðum lánum til íbúða. Ef lækka á það um 20% þá eru það 80 milljarðar. (Gripið fram í: Tæknilegt útfærsluatriði.) — Það er ekkert tæknilegt útfærsluatriði. Þetta er skuld á ríkissjóð, það er ekkert annað, og skattgreiðendur þurfa að borga það. Þannig að það gengur ekki.

Síðan eru það bankarnir. Afskriftasjóðurinn? Bankamenn vita nákvæmlega hvað það er. Það er engin eign í honum. Það er engin eign í afskriftasjóði, og að láta sér detta í hug að erlendu kröfuhafarnir, sem tapað hafa þúsundum milljarða hér á Íslandi, vilji tapa hundruð eða tvö hundruð milljónum í viðbót. (BJJ: Þeir gætu tapað öllu.) Það er alveg út í hött.

Könnun sem gerð hefur verið hjá ASÍ sýndi að 7% þeirra sem tóku þátt í henni höfðu misst vinnuna að einhverju eða öllu leyti og 14% höfðu lækkað í launum. Það segir mér að á þeim tímapunkti sem könnunin var gerð höfðu tæplega 80% þjóðarinnar hvorki orðið fyrir tekjumissi né lækkun launa. Þeir höfðu reyndar orðið fyrir lækkun launa vegna verðbólgu en það át upp hækkun launa síðustu tveggja ára um það bil. Þannig að 80% þjóðarinnar á þeim tíma, kannski eru það 70% núna, höfðu ekki orðið fyrir neinum áföllum.

En það á að setja alla á spítala. Það á að lækka skuldirnar hjá öllum, líka hjá þeim sem ekki hafa misst vinnuna og ekki hafa lækkað í launum. Það mun kosta óhemjumikla peninga og venjulegt fólk veit að það er einhver sem borgar. Það veit venjulegt fólk. Ég held að það sé engin stórhætta á kerfishruni þó að 30% þjóðarinnar séu í einhverjum vandræðum og kannski 10% í mjög miklum, þeir sem eru orðnir atvinnulausir.