Upplýsingar um fall SPRON

Mánudaginn 23. mars 2009, kl. 15:34:43 (5643)


136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

upplýsingar um fall SPRON.

[15:34]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Herra forseti. Mér finnst mikilvægt að Alþingi verði upplýst um ákveðna hluti sem varða fall SPRON og Sparisjóðabankans og ég geri kröfu til þess að hæstv. viðskiptaráðherra geri grein fyrir slíku hið fyrsta. Ég ætla ekki að fjalla um uppsagnir í beinni sem hæstv. viðskiptaráðherra stóð fyrir, sem voru forkastanlegar og jaðra við mannvonsku, herra forseti. Ég ætla hins vegar að vekja athygli á því að það er mikil spurning hvers vegna ekki var tekið tilboði kröfuhafa í sparisjóðina um lán til 50 ára með lágum vöxtum til að starfsmenn sparisjóðanna gætu haldið áfram. Þetta mál var uppi á borðinu og það þarf að fá skýringar á því hvers vegna því var ekki tekið eða fjallað um það ítarlega.

Hvað olli því að þessu tilboði var ekki tekið? Það er sýnt að ekki var reynt til hins ýtrasta. Er það stefna (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar að sporna gegn ávöxtun, er það stefna ríkisstjórnarinnar að (Forseti hringir.) stuðla að því að fella unnvörpum starfandi fólk í landinu?