Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Þriðjudaginn 24. mars 2009, kl. 21:52:02 (5832)


136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[21:52]
Horfa

Frsm. iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þá góðu umræðu sem verið hefur um þessar niðurgreiðslur. Það er ljóst að nokkuð góð samstaða er um þá leið sem verið er að fara. En ég var sein að gefa forseta merki um að ég vildi svara hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur — hún var að velta því upp, ef ég man það rétt, hvaða áhrif það hefði á íbúa og þá sem þetta þiggja að hækka hlutfall þess sem nýtt er, þ.e. úr 1% í 3%, af því sem eyrnamerkt er í fjárlögum til þessara niðurgreiðslna, sem þá er notað til þess að draga úr þessum húshitunarkostnaði og það til orkusparandi aðgerða.

Í frumvarpinu er verið að gera breytingar, það er verið að breyta forgangsröðun. Á undanförnum árum hafa áherslur verið að breytast og aðstæður almennt hafa verið að breytast sem gerir það að verkum að menn telja rétt, og við teljum rétt, að hækka þetta hlutfall til þess að styrkja nýjar hitaveitur og sömuleiðis til þess að styrkja þessar orkusparandi aðgerðir.

Á undanförnum árum hafa stjórnvöld verið að greiða út eitthvað um 1.000 millj. kr. vegna styrkja til nýrra hitaveitna og alls hafa um 2.000 íbúðir farið af rafhitun og yfir á hitaveitu á undanförnum árum. Þarna eru tekin, t.d. í greinargerð með frumvarpinu, dæmi um stór verkefni sem hafa verið styrkt á grundvelli ákvæða laga nr. 78/2002. Það eru t.d. Hitaveita Stykkishólms, Dalabyggðar, Eskifjarðar og síðan hafa líka mörg önnur minni verkefni hlotið styrki.

Enn eru í farvatninu bæði stærri og minni verkefni til þess að reyna að færa sem flest heimili í landinu úr rafhitun og yfir í hitaveitu en auðvitað verður að teljast afar ólíklegt að hægt verði að koma upp hitaveitum á köldustu svæðunum, þar sem er strjálbýlt og kostnaðarsamt að finna jarðhita og dreifa til notenda. Þess vegna verða alltaf einhverjir sem ekki er hægt að setja almennt yfir í hitaveitukerfið og við verðum að horfast í augu við það. Þá er spurningin með hvaða hætti við getum gripið til orkusparandi aðgerða til handa þessum heimilum, til þess að draga úr kostnaði bæði fyrir íbúa og líka fyrir hið opinbera og til að draga úr þessum niðurgreiðslum. Því er ákveðið að fara í þessar aðgerðir og þess vegna er talið rétt að skoða aðrar leiðir til að draga úr þessum húshitunarkostnaði og sömuleiðis styrkveitingum tengdum slíkum verkefnum. En styrkveitingar byggðar á sama grunni og styrkir til nýrra hitaveitna munu til lengri tíma litið geta dregið úr kostnaði ríkissjóðs vegna niðurgreiðslna og lækkað verulega orkukostnað þeirra sem búa ekki við hitaveituna.

Í frumvarpinu er þess vegna verið að leggja til að heimilt verði að veita styrki vegna breyttrar orkuöflunar til húshitunar. Eins og ágætlega kom fram í máli hv. þm. Herdísar Þórðardóttur og Bjarkar Guðjónsdóttur hafa varmadælur og viðarkynding verið talsvert til umræðu og þá kannski varmadælurnar ekki síst eins og hv. þm. Björk Guðjónsdóttir tók ágætt dæmi af úr Vestmannaeyjum. Aðrar leiðir komu auðvitað einnig til greina og þess vegna er þetta ákvæði algjörlega opið og menn eru nú að stíga þessi skref til þess að ná því markmiði sem getið er um í frumvarpinu, að draga úr húshitunarkostnaði íbúa á köldum svæðum, draga úr kostnaði ríkissjóðs til lengri tíma litið og hvetja til atvinnuskapandi verkefna.

Þá komum við einnig að því sem hv. þm. Pétur Blöndal fjallaði aðeins um áðan en hann fór hér að fjalla um lélegan húsakost, þ.e. sem ekki væri nægilega vel einangraður og annað. Það er alveg hárrétt hjá honum að oft hefur það verið tilfellið en það er auðvitað þannig að orkuverð hefur áhrif á hagkvæmni endurbóta og almennan vilja fólks til endurbóta. Þess vegna hefur verið sett þak eða hámark á niðurgreiðslu vegna rafhitunar og bundið við 40.000 kílóvattstundir á ári. Það hefur verið gert hingað til og það hefur ekki verið talið ráðlegt að hækka þakið meira þar sem notkun umfram þau mörk telst óeðlilega mikil og skýrist þá af lélegri einangrun og illa stilltum hitakerfum eða slíkum þáttum. Þess vegna, virðulegi forseti, er lagt til í frumvarpinu að heimilt verði, gegn mótframlagi frá húseiganda, að nýta hluta þessara fjármuna sem í dag eru notaðir til að niðurgreiða húshitunarkostnað í að styrkja húseigendur á köldum svæðum til endurbóta á húsnæði þegar um óeðlilega mikla orkunotkun er að ræða.

Að öllu þessu samandregnu, virðulegi forseti, tel ég að við eigum að geta náð því marki að draga úr kostnaði allra hlutaðeigandi aðila; íbúanna, ríkisvaldsins og þeirra sem nýta þessar niðurgreiðslur og þurfa á þeim að halda. Eins og komið hefur fram í þessari umræðu þá hefur það verið stefna hér á Alþingi Íslendinga að tryggja jafnræði til búsetu um landið allt og þetta er liður í því. Við erum auðvitað aldrei búin að komast niður á hina einu sönnu lausn en við erum þó að stíga skref í rétta átt til breyttrar forgangsröðunar og lægri kostnaðar og sömuleiðis erum við hér að stíga græn skref í orkunýtingu.