Umræða um utanríkismál

Mánudaginn 30. mars 2009, kl. 16:05:34 (6091)


136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

umræða um utanríkismál.

[16:05]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er dálítið undrandi á þessari umræðu vegna þess að ég veit ekki betur en að hæstv. forseti hafi gert grein fyrir því áðan í svari við fyrirspurn, sem hér kom fram, að þessar skýrslur verði ræddar í þinginu. Ég skil ekki hvað mönnum liggur á. Enn eru 26 dagar til kosninga þannig að nægur er tíminn hér í þinginu.

Við erum með á dagskrá í dag gríðarlega mikilvæg mál eins og t.d. lokaumræðu um frumvarp um að afnema eigi ábyrgðarmenn, gríðarlega mikilvægt mál. Við erum einnig með önnur mikilvæg mál fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu sem við gerum vonandi að lögum í dag og á morgun. Við skulum einhenda okkur í að ljúka þeim málum sem hér liggja fyrir og hætta þessum leik sem á sér stað hér þar sem menn gefa í skyn að hæstv. forseti ætli ekki að fara að lögum og fjalla um skýrslur sem lögbundið er að fjalla um.

Auðvitað verður það allt saman gert. Ég alla vegana vona að forseti standi upp og lýsi því yfir og staðfesti það og endurtaki fyrir þá sem ekki virðast ekki hafa viljað heyra það. (Forseti hringir.) Þetta verður allt saman rætt. Við höfum nægan tíma. (Forseti hringir.) Það eru enn 26 dagar til kosninga.