Aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum

Mánudaginn 30. mars 2009, kl. 16:58:45 (6122)


136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

30. mál
[16:58]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Í sjálfu sér er sú tillaga sem hér er til umræðu allra góðra gjalda verð. Það væri virkilega ánægjulegt ef það næðist fram að hlutur kvenna væri jafn á við hlut karla, hvort sem væri í sveitarstjórnum eða á Alþingi. Þannig virðast hlutir hafa skipast á mörgum framboðslistum til Alþingis við næstu alþingiskosningar að búast má við, og vonandi verður það, að hlutur kvenna aukist verulega þannig að það þokist í átt til fullnægjandi jafnréttis. (Gripið fram í: Meinarðu þetta?) Ég meina það, já, ég vænti þess að þannig verði hlutirnir og þannig þróist þetta þjóðfélag. Töluvert mikil og undarleg sjónarmið hafa oft ríkt hvað varðar stöðu kvenna og að staða kvenna ætti að vera með einhverjum hætti önnur en staða karla þegar kemur að ýmsum meiri háttar embættum eða þátttöku í stjórnmálum. Það er hlutur og hugsun sem er á leið út úr þjóðfélaginu sem betur fer.

Að sjálfsögðu tók tíma að vinna bug á þeim fordómum sem voru fyrir hendi og við skulum athuga að þegar veraldarsagan er skoðuð er ekki svo ýkja langt síðan konur fengu kosningarrétt, það er ekki svo ýkja langt síðan það var talið eðlilegt að helmingur þjóðarinnar hefði ekki kosningarrétt á grundvelli kynferðis. Okkur finnst svo gjörsamlega fráleitt í dag að slíkar skoðanir hafi verið réttlættar ár eftir ár og að konur víða um lönd, m.a. ekki síst í Bretlandi, hafi þurft að heyja mjög harða baráttu fyrir því að ná fram þessum sjálfsögðu mannréttindum. Ég styð þá hugsun sem kemur fram í þeirri tillögu til þingsályktunar sem hér ræðir um.

Það er fyrst og fremst spurningin um að ná fram viðhorfsbreytingu í þjóðfélaginu. Ég lít þannig til að það sé ekki mikilvægasti hluturinn til að ná fram bættum rétti kvenna í þjóðfélaginu eða aukinni jafnstöðu að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum eða á Alþingi þó að það sé markmið sem ég er samþykkur. Skórinn kreppir varðandi kynjamisréttið virkilega fyrst og fremst, eftir því sem ég best skynja það í þjóðfélaginu, gagnvart stöðu láglaunakvenna, með hvaða hætti þeim er búin staða, og sést á þeim mismun sem er iðulega á vinnustöðum þar sem konur eru settar hjá varðandi stöðuhækkanir og því að geta notið þægilegri vinnu og hærri launa en karlinn sem vinnur við hlið þeirra. Þar hefur mér sýnst skórinn kreppa að og einmitt í láglaunastörfunum þyrfti helst að bæta stöðu íslenskra kvenna til að ná raunverulegri jafnstöðu kvenna og karla.

Þess vegna hefði mér fundist forgangsatriði að hafa hér þingsályktunartillögu sem segði að Alþingi ályktaði — (Gripið fram í.) já, ég skal gera það með hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur þess vegna — að fela Jafnréttisstofu það verkefni að koma á jafnstöðu kvenna á við karla á öllum sviðum þjóðfélagsins, sérstaklega með tilliti til kvenna sem vinna lægst launuðu störfin. Við erum komin á síðustu daga þingsins og ég átta mig á því að það hefur litla þýðingu að leggja fram tillögu til þingsályktunar hvað þetta varðar á þessu stigi. Ég stend hér upp fyrst og fremst til að vekja athygli á þessu sjónarmiði. Kvennabaráttan á síðustu árum hefur e.t.v. um of verið miðuð við og miðað að hagsmunum þeirra kvenna í þjóðfélaginu sem betur eru settar, sem gegna stjórnunarstöðum og hafa háskólamenntun. Því miður hefur að nokkru leyti gleymst að taka tillit til þess þar sem skórinn kreppir virkilega að í kvennabaráttunni. Þar sem um er að ræða lakari menntun og lægri laun hefur einmitt verið meira um það að ræða að konur hafa verið settar til hliðar og ekki notið jafnstöðu. Það eru þau sjónarmið sem ég vek athygli á.

Varðandi atriði eins og þau að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum, og ég lít svo á að það sé verið að tala um það almennt í pólitík, með hvaða hætti í ósköpunum á Jafnréttisstofa að gera það? Ég tek undir og segi að þessi tillaga til þingsályktunar sé allra góðra gjalda verð en þegar kemur til kosninga velja kjósendurnir sjálfir fulltrúa sína. Viljum við taka valdið úr höndum kjósenda? Það er athyglivert að í tillögunni til þingsályktunar og nefndarálitinu koma ekki fram neinar tillögur um það hvernig á að vinna þetta verkefni, það eru engar vísireglur um það hvað eigi að gera, heldur eingöngu falinn einhver óbundinn opinn pakki um að Jafnréttisstofa eigi að hrinda af stað aðgerðum í því skyni að efla hlut kvenna í sveitarstjórnum.

Ég hlýt að spyrja: Hvað á Jafnréttisstofa að gera í þessu sambandi? Mér finnst dálítið sérkennilegt að engar skýringar skuli koma fram varðandi þessa tillögu til þingsályktunar um hvað ætlast sé til að gert verði í þessu skyni. Á Jafnréttisstofa að gangast fyrir auglýsingaherferð eða gera tillögu til lagabreytinga um að ákveðin ákvæði séu sett í lög varðandi kynjahlutföll þeirra sem valin eru til sveitarstjórna eða er það með einhverjum öðrum hætti?

Það sem mér finnst skipta mestu máli, og það er kannski ágætt verkefni fyrir Jafnréttisstofu, er að á öllum stigum og sviðum þjóðfélagsins sé stuðlað að viðhorfsbreytingu í þá átt að það sé við það miðað að sá grundvallarskilningur nái fram að ganga að það séu sjálfsögð mannréttindi að allir borgarar, óháð kynferði, njóti sama réttar. Það finnst mér skipta mestu máli, að allir borgarar óháð kynferði njóti sama réttar. Þess vegna ætla ég enn einu sinni að taka upp það atriði að ég tel að ég sé sviptur ákveðnum rétti miðað við það að ákveðnir borgarar þessa þjóðfélags hafa helmingi meira vægi atkvæða en ég. Þá á ég við atkvæðavægi milli kjósenda eftir einstökum kjördæmum þar sem vægi atkvæða kjósenda í höfuðborgarkjördæmum, Reykjavíkurkjördæmi suður, Reykjavíkurkjördæmi norður og Suðvesturkjördæmi, er helmingi minna en atkvæðavægi kjósenda í ýmsum öðrum kjördæmum.

Þegar við tölum um jafnrétti, borgaraleg réttindi og mannréttindi verðum við að skoða þessa hluti heildstætt og á sama hátt og ég tek undir þau sjónarmið sem liggja að baki þeim hugmyndum sem koma fram í þingsályktunartillögunni finnst mér hún því miður um of óskýr. Það er ekki vísað til þess hvernig á að standa að þeim hlutum sem hér um ræðir. Hugsunin sem á bak við býr er góðra gjalda verð því að barátta fyrir jafnstöðu kvenna er barátta fyrir mannréttindum og ég styð þá baráttu.