136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[00:25]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hlýt enn og aftur að þakka hinum virta formanni iðnaðarnefndar sem er svo vel heima í niðurgreiðslu á rafhitunarkostnaði að ekki tókst að skýra málin fyrir mér eða öðrum þingmönnum hér í salnum þegar við ræddum þetta við 2. umr. Það var augljóst mál að hv. þingmaður þurfti að vinna betur í málinu til þess að koma fram með upplýsingar í framhaldsnefndaráliti. Ég hlýt að þakka fyrir það að þingmaðurinn, hv. formaður iðnaðarnefndar, lagði það á sig.

Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að það er alltaf nauðsynlegt að endurskoða það hvernig þessi hlutföll fara inn í niðurgreiðslurnar, bæði hvað það varðar að skoða nýja tækni, sem getur hjálpað til við (Forseti hringir.) húshitunarkostnaðinn, og hins vegar að skoða hvernig (Forseti hringir.) beinu niðurgreiðslunum er varið.