Stjórnarskipunarlög

Föstudaginn 03. apríl 2009, kl. 22:03:03 (6767)


136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[22:03]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er alveg ljóst að ef á að greiða fyrir þingstörfum verða flutningsmenn málsins, þessa mikilvæga máls, að vera í þingsal með okkur. Það dugar ekki að láta sjá sig rétt sem snöggvast í korter eða svo og rjúka síðan út í sjónvarpsumræður og láta ekki sjá sig heilu dagana. Mér finnst þetta einkenna það skeytingarleysi sem kemur einmitt frá þeim flokkum sem hvað harðast hafa verið að gagnrýna samskipti framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Svo eru þeir sjálfir komnir í valdastólana og hvernig bregðast þeir við? Ég hef aldrei síðan ég byrjaði á þingi upplifað jafnmikinn hroka og skeytingarleysi í garð þingsins. Það er ekki bara það að við ræðum frumvarp sem dregur úr valdsviði þingsins, dregur úr því að þingið geti verið áfram stjórnlagaþing, það er verið að afhenda öðrum fulltrúum það vald að samþykkja stjórnarskrá. Skeytingarleysið gagnvart þinginu er algert og það er ekki hægt að lifa og búa við það í þessari umræðu að flutningsmenn málsins sem sitja í ríkisstjórn séu ekki við umræðuna, hvað þá að þeir séu ekki við ræður þeirra fulltrúa sem eru í stjórnarskrárnefndinni.