Stjórnarskipunarlög

Laugardaginn 04. apríl 2009, kl. 14:29:06 (6875)


136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:29]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kom að því í máli mínu áðan að Sjálfstæðisflokkurinn væri eins og aðrir tilbúinn til að fara í breytingar á stjórnarskránni og það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þær breytingar sem lagðar eru til eru að einhverju leyti alveg ásættanlegar fyrir Sjálfstæðisflokkinn. En sá pakki sem hér er lagður fram — ekki hefur verið reynt að leita sátta um að taka út úr honum eitthvað til að það mætti þá ná honum í gegn með breytingum. Það getur vel verið og ekki ólíklegt að í þessu séu einhver atriði sem sjálfstæðismenn geta sætt sig við. En ég bendi enn og aftur á þá málsmeðferð sem viðhöfð hefur verið og bendi enn og aftur á alla þá gagnrýni sem komið hefur fram í umsögnum um frumvarpið.

Ég minni á að við erum að ræða um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Við erum að tala um grunninn í samfélagi okkar. Með allar þær athugasemdir sem hér liggja fyrir og ekki hefur verið tekið tillit til né næg umræða verið um, þá er ekki hægt að halda þessu máli áfram. Það hefur alltaf verið markmið, og það vita hv. þingmenn, að ná sem víðtækastri sátt um breytingar á stjórnarskránni. Sú víðtæka sátt er ekki til staðar, ekki meðal okkar helstu spekinga á þessu sviði, lögspekinga, ekki meðal þeirra samtaka sem hafa verið að senda okkur álit sem hafa mikilvæga hagsmuni að leiðarljósi í samfélagi okkar og ekki meðal þingmanna. Hvað liggur svona á? Ég spyr hv. þingmann á móti: Hvað liggur svona á? Hvar eru þau mál sem við ættum að vera að ræða núna og þrjár vikur eru til kosninga? Hvar eru þau mál fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu? Komdu með þau.