Stjórnarskipunarlög

Laugardaginn 04. apríl 2009, kl. 15:20:36 (6889)


136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:20]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herrar forseti. Fyrir utan dylgjurnar sem hv. þingmaður kom með gagnvart Framsóknarflokknum gerist þingmaðurinn sekur um að fara rangt með héðan úr ræðustól Alþingis. Við framsóknarmenn settum það sem skilyrði að kosningar færu fram eigi síðar en 25. apríl. (Gripið fram í.) Það stóð. Hv. þingmaður segir að ekkert standi af skilyrðum Framsóknarflokksins. Framsóknarflokkurinn hefur komið fram með sínar tillögur í efnahags- og atvinnumálum og við stöndum keik hvað það varðar.

Þegar hv. þingmaður vænir Framsóknarflokkinn um að hafa tekið stjórnarskrána í gíslingu mótmæli ég því harðlega. Það er einfaldlega þannig að hér er Sjálfstæðisflokkurinn að opinbera sig, þetta er valdaflokkurinn, allt á að gerast á forsendum Sjálfstæðisflokksins og ef Sjálfstæðisflokkurinn samþykkir ekki ákveðna hluti eiga þeir ekki að fara í gegn.

Það vill svo til að 70% þjóðarinnar er á því að við eigum að boða til stjórnlagaþings, alveg sama hvað hv. þingmönnum (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokksins þykir um það viljum við framsóknarmenn (Forseti hringir.) koma á stjórnlagaþingi fyrr en síðar. (Gripið fram í.)