Almennar stjórnmálaumræður

Þriðjudaginn 07. apríl 2009, kl. 20:06:14 (7221)


136. löggjafarþing — 129. fundur,  7. apr. 2009.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:06]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur haft níu vikur til að rjúfa kyrrstöðuna, spyrna við fótum og hefja endurreisnina. Margir dýrmætir mánuðir liðu þar sem ekki var tekið nægilega markvisst á málum. Ný ríkisstjórn hefur hins vegar látið hendur standa fram úr ermum og náð miklum árangri í efnahagsmálum, í lýðræðis- og réttlætismálum. Hún hefur náð miklum árangri fyrir atvinnulífið og heimilin í landinu. Við höfum snúið efnahagsþróuninni við og endurreisn fjármálakerfisins er í augsýn. Við höfum hafið raunverulegar og faglegar viðræður við erlend ríki og erlenda kröfuhafa um lausn erfiðra deilumála svo sem varðandi Icesave-reikningana, lánafyrirgreiðslu frá vinaþjóðum okkar og uppgjör vegna gömlu bankanna. Við höfum kynnt og undirbyggt áætlun um 6 þúsund ný störf um land allt og við höfum fært heimilum og fjölskyldum ný úrræði til þess að takast á við þá fjárhagslegu erfiðleika sem nú steðja að. Við höfum staðið vörð um velferðarkerfið, við höfum afnumið óréttlæti í lífeyrismálum ráðamanna, lagt grunn að auknu gegnsæi, bættu siðferði og vinnubrögðum í stjórnkerfinu, viðskiptalífinu og dómskerfinu.

Virðulegi forseti. Samfylkingin hefur frá fyrsta degi bankahrunsins lagt áherslu á mikilvægi þess að bregðast kröftuglega við vanda heimilanna. Nú hefur Seðlabankinn í fyrsta sinn kortlagt raunverulega stöðu heimilanna í landinu sem sýnir okkur að viðfangsefnið er viðráðanlegt en það þarf að vinna í því hratt og örugglega. Vandinn er tímabundinn rétt eins og samdráttarskeiðið sjálft og þess vegna þurfum við að byggja eins konar velferðarbrú, velferðarbrú til að koma heimilunum yfir tímabil erfiðleikanna. Brúarsmíðin gekk afar hægt í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn en eftir kraftmikið ríkisstjórnarsamstarf undanfarinna tveggja mánaða sér loks fyrir endann á verkinu. Velferðarbrúin samanstendur af mörgum markvissum aðgerðum sem styðja við öll heimili í landinu og liðsinna eftir þörfum skuldsettum heimilum sem komast í vanda.

Greiðslubyrði getur lækkað um 10–50%. Afborgunum má fresta í allt að þrjú ár, vaxtabætur til endurgreiðslu á vöxtum og útgjöldum heimila vegna verðtrygginga verða hækkuð um a.m.k. 70%, nærri 4 milljarða kr. Losað hefur verið um milljarða af séreignarsparnaði fólks, nauðungarsölur stöðvaðar, dráttarvextir lækkaðir verulega og svo mætti lengi telja.

Síðast en ekki síst verð ég að nefna greiðsluaðlögunina. Loksins hefur þetta gríðarlega mikilvæga úrræði skuldsettra heimila verið lögfest og vegna þess munu þau heimili sem verst eru sett fá afskrift skulda eða aðlögun með öðrum hætti sem tryggir þeim leið yfir skuldafenið. Velferðarbrúin mun nýtast öllum, þeim best sem mest þurfa á liðsinni að halda. Brúarleiðin er ábyrg lausn á vanda heimilanna í landinu. Mikilvægasta leiðin til þess að treysta stöðu heimilanna er hins vegar að efla atvinnuvegina, sporna gegn atvinnuleysi og vinna gegn kjararýrnun.

Virðulegi forseti. Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur á níu vikum afgreitt meira en 40 mikilvæg frumvörp til Alþingis. Hún hefur sýnt að hún drífur verkin áfram og er ríkisstjórn aðgerða. Það er því mikið öfugmæli þegar því er haldið fram að þessi ríkisstjórn hafi verið aðgerðalaus. Þvert á móti hefur ríkisstjórnin þrátt fyrir skamman starfstíma nú þegar hrint 39 af 50 verkefnum stefnuyfirlýsingarinnar í framkvæmd. Sex verkefni klárast á næstu dögum og fimm verkefni sitja föst í þinginu vegna málþófs og andstöðu Sjálfstæðisflokksins. Auk þess hefur ríkisstjórnin beitt sér fyrir fjölda lagafrumvarpa og samþykkta sem ekki var getið um í verkefnaskránni, ekki síst í þágu atvinnuuppbyggingar og endurreisnar á fjármálamarkaði. Ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir vel á fimmta tug þingmála á þessum stutta tíma. Það er dapurlegt til þess að vita að ástæða þess að ofangreind þingmál eru ekki þegar komin til framkvæmda fyrir fólkið í landinu er sú að Sjálfstæðisflokkurinn hefur komið í veg fyrir samþykkt þeirra á hinu háa Alþingi með málþófi sem engan enda ætlar að taka. Í þessari stöðu er auðvitað óþolandi að sjálfstæðismenn tali klukkutímum saman um mál sem enginn ágreiningur er um en á sama tíma tala þeir um að þingið þurfi að hætta störfum þannig að þingmenn komist til kosningabaráttu.

Virðulegi forseti. Rúmur mánuður er síðan frumvarp til stjórnarskipunarlaga var lagt fyrir Alþingi en áður hafði efni þess verið kynnt forustumönnum allra stjórnmálaflokka sem fulltrúa eiga á Alþingi. Flest þeirra ákvæða sem nú eru lögð fram hafa auk þess árum saman verið til umfjöllunar á vettvangi stjórnvalda eða hér á Alþingi án þess að þau hafi náð fram að ganga. Menn hafa ekki haft kjark eða þor til þess að færa almenningi aukið vald með þeim breytingum sem nú liggja fyrir. Það er staðreynd málsins. Allt annað er fyrirsláttur.

Hér er um að ræða afar mikilvægar breytingar sem varða réttindi almennings, þjóðaratkvæðagreiðslu, stjórnlagaþing og síðast en ekki síst auðlindirnar. Aldrei hefur verið mikilvægara en nú að kveðið sé á um það í stjórnarskrá að dýrmætar náttúruauðlindir okkar sem ekki eru háðar einkaeignarrétti séu þjóðareign, eign allrar þjóðarinnar sem ekki má selja eða láta varanlega af hendi.

Því hefur verið haldið fram að með því að setja á stofn sérstakt stjórnlagaþing sé vegið að sjálfstæði og áhrifum Alþingis. Ég vil minna á að vinna við endurskoðun stjórnarskrárinnar hefur staðið nánast óslitið yfir frá lýðveldisstofnun árið 1944 með takmörkuðum árangri. Aðstæður í þjóðfélaginu eru auk þess með þeim hætti eftir bankahrunið í október að almenningur kallar eftir gegnsæi og trausti í störfum ráðamanna. Stjórnarskránni er m.a. ætlað að kveða á um valdmörk Alþingis og því ekki óeðlilegt að óháðir aðilar, kosnir persónukjöri móti slíkar grundvallarreglur. Á það ekki síst við um kosningar til Alþingis þar sem þingmenn sjálfir fara með ákvörðunarvald sem snertir eigin hagsmuni. Krafan um að Alþingi stígi til hliðar þegar að því kemur að setja þær nýju leikreglur samfélagsins sem felast í nýrri stjórnarskrá er því svo rík að réttlætanlegt verður að teljast að stjórnarskrárgjafarvaldið verði tímabundið fært frá Alþingi til annars stjórnarskrárgjafa sem sérstaklega er kosinn til þess starfs. Það felst mikil þversögn í því að við sem erum lýðræðislega kjörin af fólkinu í landinu skulum ekki vilja stjórnlagaþing til að veita fleirum en okkur tækifæri til þess að breyta stjórnarskránni okkar.

Nú eru liðnir 10 dagar síðan fulltrúar allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins lögðu fram til sátta breyttar tillögur að stjórnarskrárbreytingum. Enn hafa sjálfstæðismenn ekki brugðist við þeim sáttatillögum með neinum hætti öðrum en þeim að endurtaka í sífellu sömu ræðurnar. Þannig hefur það verið frá upphafi þessa máls, allt frá 19. febrúar sl. og það er auðvitað háalvarlegt mál. Maður spyr: Eru sjálfstæðismenn virkilega einir flokka á móti því að setja í stjórnarskrána að auðlindirnar séu þjóðareign? Eru sjálfstæðismenn virkilega einir flokka á móti rétti fólks til að hafa sjálft frumkvæði að þjóðaratkvæðagreiðslu? Eru sjálfstæðismenn einir flokka á móti því að aðrir en alþingismenn komi að mótun stjórnskipunar, að almenningur fái rödd og áhrif á stjórnlagaþingið?

Virðulegi forseti. Þjóðin vill nýtt upphaf, nýjan grundvöll stjórnskipunar byggðan á þeim lýðræðislegu gildum sem rutt hafa sér til rúms. Stjórnskipun landsins verður að aðlaga sig breyttum aðstæðum og breyttum viðhorfum fólksins í landinu. Slík breyting er að mínu viti mikilvæg forsenda þess að traust og varanleg sátt náist í samfélaginu eftir óróa undanfarinna missira. Okkur Íslendingum væri mikill sómi að því að minnast 200 ára fæðingarafmælis Jóns Sigurðssonar 17. júní árið 2011 með nýrri stjórnarskrá íslenska lýðveldisins.

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Ríkisstjórnin tók ekki við blómlegu búi en okkur hefur tekist að snúa vörn í sókn. Endurreisnin er svo sannarlega hafin. Verðbólgan er á hraðri niðurleið, vextir fara lækkandi og von er á ákvörðun nýrrar peningastefnunefndar á morgun. Verulegur afgangur er af vöruviðskiptum og sýnir hann vel aðlögunarhæfni íslenska hagkerfisins. Trúverðugleiki Seðlabankans og fjármálaeftirlitsins hefur verið endurreistur undir nýjum yfirstjórnum. Brýnasta verkefnið fram undan er að endurreisa bankakerfið, lækka vextina enn frekar og afnema gjaldeyrishöftin. Með hækkandi sól mun atvinnulífi vaxa styrkur og þor. Atvinnuleysi mun hægt og bítandi láta undan síga og fjárhagur heimilanna mun batna.

Vinna og velferð eru samtvinnuð hugtök sem aldrei verða í sundur skilin. Atvinna er grundvöllur velferðar og velferðin er grundvöllur þess samfélags sem við viljum byggja upp. Við jafnaðarmenn höfum ávallt staðið vörð um þessi gildi og munum sannarlega gera það fáum við til þess áframhaldandi umboð. Við verðum líka að tryggja að allir hópar samfélagsins taki þátt í endurreisninni og njóti ávaxtanna af erfiðinu. Konur þurfa að fá stóraukið vægi í samfélaginu, bæði í stjórnmálum, atvinnulífinu og annars staðar þar sem framtíðin er mótuð. Kynbundinn launamunur og sá mikli launamunur sem orðinn var staðreynd milli ofurlaunaaðalsins og láglaunafólks má ekki verða hluti af framtíðarsamfélaginu sem nú verður mótað.

Í mínum huga leikur enginn vafi á því að við eigum að hefja viðræður við Evrópusambandið sem allra fyrst til að fá alla kosti upp á borðið. Það er ábyrgðarhluti að ætla í framtíðinni að treysta á íslensku krónuna og það er ábyrgðarhluti að bjóða ekki íslenskri þjóð og unga fólkinu okkar lífskjör eins og þau gerast best í hinum vestræna heimi. Við eigum að stefna að upptöku evru eins fljótt og kostur er. Atvinnulífið getur ekki lengur siglt í ólgusjó ótryggs gjaldmiðils. Aðild að Evrópusambandinu auðveldar líka afnám verðtryggingar. Það er óþolandi að íslenskt launafólk og íslenskt atvinnulíf búi ekki við hliðstæð kjör og bjóðast í efnahagsumhverfi nágrannalanda okkar og meðal helstu viðskiptaþjóða okkar. Ég treysti þjóðinni best til að vega og meta kosti aðildar að Evrópusambandinu þegar raunverulegir kostir eru komnir upp á borðið. Ég treysti þjóðinni best til að vísa veginn. Til þess þarf þjóðin hvorki okkur þingmenn, ráðherra, né útvalda sérfræðinga til að segja sér fyrir verkum.

Ágætu landsmenn. Við búum við forréttindi í margvíslegum skilningi. Við höfum lengst af borið gæfu til að búa í samfélagi án stéttaskiptingar, samfélagi sem er einstaklega auðugt af náttúruauðlindum og gæðum sem hafa aldrei verið eftirsóttari en í dag. Samfylkingin vill sáttmála um ný gildi sem byggir á traustum grunni jafnaðarhreyfingarinnar. Þau gildi hvíla á undirstöðum félagshyggjunnar þar sem atvinnulífið nýtur frjálsræðis og skýrar leikreglur eru virtar þar sem spillingin er kveðin niður, þar sem reisn hins vinnandi manns og virðing þeirra sem minnst mega sín helst í hendur við gott gengi atvinnulífs í opnum og stækkandi heimi. Besta leiðin áfram er öfgalaus jafnaðarstefna, stefna sem byggir á ábyrgð manns á manni, þar sem enginn líður skort, þar sem allir búa við öryggi og félagsleg samhjálp er kjölfestan en um leið stefna sem treystir frjálsa atvinnustarfsemi með heilbrigðum leikreglum og gegnsæi. Við verðum að takast á við það verkefni að byggja upp traust gagnvart íslensku viðskiptalífi og atvinnulífi, íslenskum almenningi, stjórnvöldum og íslenskri þjóð. Við viljum vera stoltir þátttakendur í opnu lýðræðislegu samstarfi á alþjóðavettvangi. Það er engin leið til baka. Eina boðlega leiðin er að afla okkur trausts á ný og bindast öðrum þjóðum nánari böndum. Það er hin boðlega framtíð fyrir unga fólkið og börnin, fyrir okkur og komandi kynslóðir. — Góðar stundir.