Almennar stjórnmálaumræður

Þriðjudaginn 07. apríl 2009, kl. 20:30:16 (7223)


136. löggjafarþing — 129. fundur,  7. apr. 2009.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:30]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Góðir landsmenn. Sá veldur miklu sem upphafinu veldur, segir gamalt og gott íslenskt máltæki. Árið 1991 urðu mikil kaflaskil í íslenskum stjórnmálum. Þá var leidd til öndvegis stefna ómengaðrar nýfrjálshyggju og einkavæðingar undir forustu Sjálfstæðisflokksins. Þessi stefna ágerðist á valdatíma hans, þróaðist út í taumlausa græðgisvæðingu og gróðadýrkun, ofurlaun, bruðl og siðleysi.

Þann 1. febrúar sl. lauk þessum kafla í sögu okkar. Hátt í 18 ára valdatíma Sjálfstæðisflokksins lauk í rústum banka- og efnahagshruns og samfélagið var á barmi upplausnar. Það er því dálítið dapurlegt að sjá nýkjörinn formann Sjálfstæðisflokksins koma hér og draga upp gamaldags hræðsluáróður. Formaður Sjálfstæðisflokksins reynir að hræða fólk frá því að kjósa aðra í staðinn fyrir að reyna að sannfæra það um að kjósa sig. Ætli það sé ekki frekar í ljósi reynslunnar „Sjálfstæðisflokkurinn“ sem þjóðin hafi ástæðu til að óttast?

Sjálfstæðisflokkurinn ber óumdeilanlega meiri ábyrgð á því en nokkur annar íslenskur stjórnmálaflokkur hvernig komið er. Það er við þetta tímabil, þessa arfleifð Sjálfstæðisflokksins, sem við gerum upp reikningana í kosningunum laugardaginn 25. apríl nk. um leið og við kjósum og að hinu leytinu til um framtíðina. Hvernig Ísland viljum við? Öðruvísi Ísland. Viljum við aftur það sem var og hrundi eða viljum við annað betra, manneskjulegra og ekki síst heiðarlegra samfélag?

Aðkoman var ekki burðug þegar ný ríkisstjórn hófst handa um tiltektina 1. febrúar sl. Það voru ærin verkefni sem lágu umkomulaus og afvelta. Fráfarandi ríkisstjórn hafði bersýnilega ekki bara verið ákvarðanatökufælin og verklítil, hún hafði meira og minna verið óstarfhæf. Aðgerðaleysi var orðið að sjálfstæðu efnahagsúrræði, hjá henni var aðgerð í sjálfu sér að gera ekki neitt.

Núverandi ríkisstjórn hefur við erfiðar aðstæður á skömmum tíma, rúmum tveimur mánuðum, komið ótrúlega miklu í verk. Ég ætla að fara yfir nokkur atriði í því sambandi.

Ríkisstjórnin ákvað og boðaði þingkosningar. Ríkisstjórnin lagði fyrir Alþingi viðamiklar tillögur um lýðræðis- og stjórnskipunarumbætur í formi frumvarps til stjórnarskipunarlaga og kosningalaga. Frumvarp um endurskipulagningu Seðlabankans er orðið að lögum. Eftirlaunalög um afnám lífeyris og sérréttinda ráðherra og alþingismanna að fullu og öllu er orðið að lögum. Opnað hefur verið fyrir aðgang fólks að séreignarsparnaði og hafa yfir 20.000 manns þegar ákveðið að nýta sér það. Nauðungaruppboð hafa verið stöðvuð fram á haust, aðfararfrestir lengdir og fleira í þeim dúr. Aðgangur sérskipaðs saksóknara að hvers kyns gögnum hefur verið tryggður, embættið stóreflt, ekki síst með ráðningu rannsóknardómarans Evu Joly.

Gagnsæi hefur verið tryggt í störfum Fjármálaeftirlitsins. Greiðsluaðlögun samningskrafna hefur verið lögfest og greiðsluaðlögun fasteignaveðlána bíður afgreiðslu þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur lokið málflutningi sínum um stjórnarskrána. Stórhækkun vaxtabóta bíður afgreiðslu. Dráttarvextir hafa verið lækkaðir með lögum. Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað hefur verið hækkuð úr 60% í 100% til að örva byggingariðnaðinn og m.a. útvíkkuð til sveitarfélaga. Frumvarp um gjalddagaaðlögun fyrir atvinnulífið hefur verið lögfest. Fyrirtækjum hefur verið auðveldað að gera upp virðisaukaskatt, þar á meðal bændum sérstaklega. Bjargráðasjóði verður beitt til að auðvelda bændum áburðarkaup og viðræður eru hafnar milli ríkisvaldsins og Bændasamtakanna um meðferð þeirrar skerðingar á búvörusamningi sem fyrri ríkisstjórn ákvað. Frumvarp um að loka skattaskjólum bíður lokaafgreiðslu. Mikilvæg frumvörp um fjármálafyrirtæki og fjármálamarkaðinn bíða afgreiðslu. Velferðarvakt hefur verið komið á.

Teknar hafa verið saman, kynntar og lagðar upp á netið á island.is upplýsingar um stöðu og horfur þjóðarbúsins og ríkissjóðs. Þar með var staðið við loforð um að upplýsa um þá hluti og segja þjóðinni satt.

Ákveðið hefur verið að innleiða Árósasamninginn, mikilvæga réttarbót á sviði umhverfismála. Hætt var við að selja inn á sjúkrahús. Stjórn LÍN hefur verið endurskipulögð eftir 18 ára yfirstjórn Sjálfstæðisflokksins. Kynjuð hagstjórn verður innleidd. Dagpeningar hafa verið lækkaðir og ýmis forréttindi ráðherra, sendiherra og fleiri felld niður.

Samkomulag um vistvæn opinber innkaup hefur verið undirritað. Viðamikilli aðgerðaáætlun um fjölgun starfa ýtt úr vör. Þúsundir ársverka við viðhalds- og byggingarverkefni, nýsköpunarverkefni, umhverfisverkefni o.s.frv. Nefnd sem heldur á hagsmunum ríkisins vegna endurreisnar bankanna skipuð og henni til aðstoðar ráðið alþjóðlegt ráðgjafarfyrirtæki. Samninganefnd um Icesave skipuð til að gæta hagsmuna okkar í því máli og sú starfar nú af krafti. Samninganefnd um lán frá seðlabönkum grannríkja skipuð og hefur hún þegar unnið mikið starf. Þessir þrír síðustu þættir voru allir afvelta hjá fyrri ríkisstjórn.

Byggðastofnun verður gerð starfhæf að nýju. Samið hefur verið við samtök fjármálafyrirtækja um að allir njóti sömu fyrirgreiðslu varðandi íbúðalán og Íbúðalánasjóður býður. Tekið verður sérstaklega á þeim aðstæðum sem námsmenn standa frammi fyrir í sumar o.s.frv. Ég læt hér staðar numið en fjölmargt í viðbót mætti nefna. Þetta hefur m.ö.o. sannanlega verið afar starfsöm og samhent ríkisstjórn sem hefur þegar áorkað miklu í þágu fjölskyldna og heimila í landinu, sem og atvinnulífsins.

Auðvitað eru ótalin fjölmörg erfið verkefni sem þarf að sinna og tengjast bönkum, sparisjóðum, fjármálafyrirtækjum, málefnum atvinnulausra, undirbúningi undir fjárlagagerð o.s.frv. Banka- og efnahagshrunið, nýfrjálshyggju- og græðgisvæðingartímabilið í boði Sjálfstæðisflokksins skilur Ísland eftir í sárum. Þungar byrðar leggjast nú á ríkissjóð og fram undan er það erfiða verkefni að takast á við mikinn halla á ríkissjóði og ná þar endum saman. Því ber, eða kannski bar, að fagna að svo virtist sem allir flokkar og Sjálfstæðisflokkurinn þar með talinn féllust á að þetta yrði að gera með blönduðum aðferðum, blandaðri leið sparnaðar og ýtrasta aðhalds og svo tekjuöflunar. Ég hélt, a.m.k. þangað til í kvöld, að yfirlýsing formanns Sjálfstæðisflokksins frá því á föstudag stæði — um að Sjálfstæðisflokkurinn útilokaði ekki tekjuöflun og ekki skattahækkanir sem lið í þessum aðgerðum — en kannski var það dregið til baka í kvöld og virðist þá nýr formaður skipta um skoðun á því hvort skattahækkanir komi til greina eða ekki.

Það skiptir hins vegar miklu máli, hvaða aðferð sem notuð verður í þessum efnum, hvernig það verður gert, að velferðarkerfið verði varið eins og kostur er, kjörin jöfnuð, byrðunum dreift með félagslega réttlátum og sanngjörnum hætti og tekna aflað eftir því sem það er skynsamlegt þannig að þeir sem eru aflögufærir leggi af mörkum en hinum verði hlíft sem höllustum fæti standa. Verkefnið er vissulega ærið en ég veit og trúi því af sannfæringu að það er leysanlegt.

Ég hef tekið þátt í því áður að taka til eftir íhaldið. Við höfum gert það bæði, ég og forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir. Við sátum í ríkisstjórninni sem tók við keflinu 1988 þegar ríkisstjórn undir forustu Sjálfstæðisflokksins hrökklaðist frá völdum. Við höfum reynsluna, við vitum hvað til þarf.

Baráttan gegn atvinnuleysi hlýtur að verða algjört forgangsatriði. Störfum þarf að fjölga og verðmætasköpun að aukast með öllum tiltækum ráðum. Árið í ár og hið næsta verður vissulega erfitt en við Íslendingar erum líka gæfusöm að eiga mikil tækifæri, mikla möguleika. Ísland er þróað og vel uppbyggt land, ríkt af auðlindum. Einu megum við síst af öllu tapa og það er trúin á framtíðina. Hana þurfum við að varðveita. Það á ekki og má ekki hvarfla að neinu okkar sem býður fram þjónustu sína sem fulltrúar þjóðarinnar að verkefnið fram undan sé ekki viðráðanlegt, við þurfum að trúa á það, vilja það og geta leyst það. Ef við trúum því ekki sjálf er varla von að aðrir geri það. Allra síst má unga kynslóðin í þessu góða landi missa trúna á möguleikana á Íslandi. Hér skal áfram verða gott að búa, gott að fæðast, gott að alast upp, gott að eldast og lifa lífinu til fulls.

Góðir Íslendingar. Við skulum gera þetta saman, við munum fara í gegnum þetta saman.