Barnaverndarlög

Fimmtudaginn 16. apríl 2009, kl. 11:13:04 (7647)


136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

barnaverndarlög og barnalög.

19. mál
[11:13]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég fagna því að við lögfestum nú ákvæði í barnaverndarlög þar sem staðfest er að það er refsivert og varðar sektum eða fangelsi allt að þremur árum að beita barn andlegum eða líkamlegum refsingum eða annarri vanvirðandi háttsemi, hótunum eða ógnunum. Þetta er ákaflega mikilvægt og verður væntanlega til þess að við þurfum ekki aftur að upplifa slíkt réttarhneyksli sem varð í fyrrahaust í héraðsdómi og aftur í Hæstarétti eftir áramótin þar sem karlmaður var sýknaður fyrir að rassskella tvo mjög unga drengi og klappa þeim síðan á beran botninn og olíubera á eftir. Þetta var hneyksli í mínum augum og ég fagna aðkomu hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra og ráðuneytis hennar að þessu máli og fagna líka frumkvæði hæstv. ráðherra Kolbrúnar Halldórsdóttur sem bar þetta mál inn í þingið strax á haustdögum. Þetta er mikið fagnaðarefni og réttarbót fyrir börn í þessu landi.