Sjúkraskrár

Fimmtudaginn 16. apríl 2009, kl. 16:57:59 (7708)


136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[16:57]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Við erum í 2. umr. um frumvarp til laga um sjúkraskrár sem við höfum rætt hér í dag og höfum verið mikið með milli handanna í hv. heilbrigðisnefnd í vetur og unnið þar mjög góða vinnu. Fyrst var það vinna sem var unnin undir minni forustu í nefndinni en síðan tók hv. þm. Þuríður Backman, núverandi formaður heilbrigðisnefndar, við og leiddi málið til lykta.

Það er ánægjulegt að frumvarpið er unnið í góðri sátt milli stjórnmálaflokka og mikil samstaða er um að það nái fram að ganga. Þó hafa ákveðnar efasemdir komið fram um fjármögnun á verkefninu. Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins kemur fram að það mun kosta um einn og hálfan milljarð að hrinda því í framkvæmd eða innleiða það fram til ársins 2011 og jafnframt kemur fram að ekki megi leiða það af ákvæðum frumvarpsins hver fjárfestingin er í þessu. Á hinn bóginn verður líka að segjast að undirbúningur þessa verkefnis hefur tekið langan tíma, verkefnið hefur verið lengi í undirbúningi. Meðal annars hefur starfsmaður í heilbrigðisráðuneytinu um árabil unnið að undirbúningi á því og enn þann dag í dag er mikil áhersla lögð á þennan þátt.

Mikil þekking á þessu sviði liggur í heilbrigðiskerfinu og þegar hafa verið innleidd kerfi innan heilbrigðisstofnana sem halda utan um sjúkraskrár með rafrænum hætti. Jafnframt hafa komið fram um það efasemdir að það kerfi sem notað hefur verið undanfarin ár, sem er hið svokallaða sögukerfi, verði notað til framtíðar. Allt er þetta enn í umræðunni og vil ég ekki fullyrða neitt á þessari stundu en það hefur verið rætt meðal heilbrigðisstarfsfólks að jafnvel þurfi að fara að vinna þetta kerfi frá grunni til þess að hægt sé að tengja kerfið saman um allt land.

Ekki fer á milli mála hve mikið notagildi er í að koma á rafrænni sjúkraskrá. Þó að fólk sæki sér yfirleitt þjónustu á sömu stofnunum eða til sömu aðila á hverjum tíma verður ekki fram hjá því litið að upplýsingar um sjúkrasögu sjúklinga liggja víða í kerfinu og mikill fengur er í því að leiða þær upplýsingar saman til þess að fá heildarmynd af sjúkrasögu sjúklingsins og hvernig brugðist hefur verið við heilsufarsástandi hans á hverjum tíma. Það er því ljóst að í þessu felst bæði aukið öryggi fyrir sjúklinginn og meiri upplýsingar liggja fyrir til grundvallar ákvörðunartöku um meðferð og aðgerðir og í því felst mikið öryggi fyrir sjúklinginn. Þar að auki kemur þetta í veg fyrir tvítekningu á rannsóknum eða aðgerðum.

Við vitum að fólk fer yfirleitt fyrst með heilsufarsvandræði til heimilislæknis og fer þar í ákveðnar rannsóknir. Síðan er viðkomandi jafnvel vísað til sérfræðings og þar eru gerðar aðrar rannsóknir og jafnvel þaðan inn á sjúkrahús og þar eru enn og aftur gerðar rannsóknir. Allar þessar rannsóknir eru þá hugsanlega gerðar á mismunandi rannsóknarstofum þannig að ekki er hægt að nýta fyrri rannsóknir eða sjá t.d. framgang sjúkdóms þegar hann er til staðar til þess að meta stöðu mála. Umræða um samtengingu sjúkraskráa hefur því átt sér stað um langt skeið hér á landi og mikill áhugi er meðal heilbrigðisstarfsmanna á að hrinda henni í framkvæmd. Einnig hefur verið bent á að slík samtenging rafrænnar sjúkraskrár fyrir alla Íslendinga geti orðið til þess að við verðum í fararbroddi fyrir þróun úti í heimi, gæti þess vegna orðið útflutningsvara því að samfélagið hér er sérstakt að því leyti að það er lítið, það er ungt og góð þekking liggur í samfélagi okkar. Fyrir utan þá þætti sem ég hef rætt um, um aukið öryggi og minni kostnað, er það ekki nokkur spurning að aukin gæði felast í þjónustu við sjúklinga, óþægindi sjúklinga verða minni, þeir þurfa ekki að fara á milli staða til þess að endurtaka t.d. rannsóknir sem notaðar eru á mismunandi stöðum.

Í nefndinni var töluvert rætt um öryggi sjúkraskrárupplýsinga og geymslu þeirra og á það hefur m.a. verið bent að öryggi sjúkraskráa í dag, þegar þær eru á pappírsformi, er ekki mikið. Aðgangur að slíkum upplýsingum er greiður. Á sjúkrastofnunum liggja sjúkraskrár inni á vakt og ýmsir hafa þar aðgang. Á heilsugæslustöðvum eru sjúkraskrár á pappírsformi oft í geymslum inn af móttöku sem er fyrir allra augum og þeir sem ætla sér að ná í slíkar upplýsingar gætu hugsanlega gert það ef þeir hefðu áform þar um.

Við höfum líka fylgst með þeirri þróun sem orðið hefur á sjúkrastofnunum þegar sjúkraskrár hafa verið færðar á rafrænt form. Er þá gert ráð fyrir því, eins og kemur fram í frumvarpinu, að heilbrigðisstarfsmenn sem þurfa á því að halda að komast inn í slíkar skrár fái aðgangsorð og slík aðgangsorð verði hægt að rekja. Allir sem fara þar inn þurfa þá að gera grein fyrir því af hverju þeir eru að fara inn í sjúkraskrána.

Við munum öll að ekki alls fyrir löngu kom upp mál á sjúkrastofnun hér á landi þar sem ákveðin stikkprufa var tekin á því hverjir hefðu farið í sjúkraskrá tiltekins sjúklings sem ekki var nafngreindur enda engin þörf á því, en það var þekktur einstaklingur. Menn reyndu að gera sér grein fyrir því hverjir hefðu skoðað sjúkraskrána og kom þá í ljós að einhverjir heilbrigðisstarfsmenn þurftu að gera yfirmanni sínum grein fyrir því af hvaða ástæðum þeir hefðu farið inn í þessa tilteknu sjúkraskrá. Í þessari tækni felst ákveðið aðhald, þ.e. að enginn afli sér persónuupplýsinga í heimildarleysi.

Frumvarpið er mikill fengur fyrir heilbrigðisþjónustuna en jafnframt hljótum við að lýsa ákveðnum áhyggjum yfir því að ekki er búið að tryggja fjármagn í þetta verkefni. Kostnaðurinn við það er um einn og hálfur milljarður króna en á móti kemur að í því felast töluverðir möguleikar á sparnaði innan heilbrigðisþjónustunnar sem þar að auki leiðir til aukins (Forseti hringir.) öryggis.