Sjúkraskrár

Fimmtudaginn 16. apríl 2009, kl. 17:32:00 (7714)


136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[17:32]
Horfa

Frsm. heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get upplýst að um trúnað og þagnarskyldu eftir andlát er vísað til 12. gr., það á við um meðferð heilbrigðisstarfsmanns gagnvart sjúkraskrá. Í 14. gr. er síðan vísað til reglugerðarákvæðis.

Ráðherra setur nánari reglur um afhendingu og varðveislu sjúkraskráa að fengnum tillögum landlæknis og Læknafélags Íslands. Þar með erum við þá komin í reglugerðina um sjúkraskrár en í 13. gr. segir að lækni sé skylt að afhenda sjúklingi eða umboðsmanni hans afrit sjúkraskrár allrar eða að hluta. Í 14. gr. segir í framhaldinu að telji læknir það ekki þjóna hagsmunum sjúklings að afhenda afrit sjúkraskrár þá skuli læknir án tafar framsenda landlækni afrit sjúkraskrár til frekari afgreiðslu.

Þetta kemur því fram í þremur greinum. Þess vegna má vera að það sé rétt að vísa einmitt til þessara greina, a.m.k. var sá grunnur sem við byggðum á talinn vera mjög svipaður og ákvæðin í dönsku og norsku lögunum.