Sjúkraskrár

Fimmtudaginn 16. apríl 2009, kl. 17:48:37 (7719)


136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[17:48]
Horfa

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar mikilvægu upplýsingar, enda þekkir hv. þingmaður þetta mál mætavel. Mér sýnist það vera einsýnt að við munum í nefndinni á eftir heyra sjónarmið bæði heilbrigðisráðuneytisins og landlæknis í þessa veru og það hljómar mjög skynsamlega í mín eyru að þetta sé gert með þeim hætti sem hv. þingmaður leggur til, þ.e. að fella niður 1. mgr. til að koma til móts við þau sjónarmið sem rakin eru í nefndarálitinu sem eru réttmæt, því það má teljast fremur óvenjulegt að fyrir liggi samþykki sjúklings fyrir lát hans hvort hann vilji heimila aðgang að sjúkraskrá. Þá yrði það reyndar ekki nema í þeim tilvikum þar sem vitað er að ágreiningur getur risið upp innan fjölskyldunnar sem krefst aðgangs að sjúkraskrá. Eins og hv. þingmaður bendir á er dómsúrskurður rétta leiðin í þeim tilvikum.

Ég tel að við þurfum að skoða þetta nánar og þakka hv. þingmanni enn og aftur fyrir að benda á þennan feil í frumvarpinu, þ.e. tilvísunin er með þeim hætti að hún gæti túlkast þannig að hún fari í hring. Ég bendi jafnframt á að í máli hv. formanns heilbrigðisnefndar kom fram áðan að hún nefndi fleiri en 14. gr. Hún nefndi einnig 12. gr. og við í nefndinni munum þá fjalla um 12. gr. (Forseti hringir.) laga um réttindi sjúklinga og munum því skoða þá tilvísan.