Sjúkraskrár

Fimmtudaginn 16. apríl 2009, kl. 17:57:57 (7722)


136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[17:57]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásta Möller kom inn á mjög mikilvægt mál þegar kemur að færslu upplýsinga í sjúkraskrár en ég held að það sem hún vísaði í með umsögn vísindasiðanefndar sé kannski að einhverju leyti byggt á misskilningi, en ég læt hv. formanni heilbrigðisnefndar eftir að svara, því ég þekki ekki þá umræðu sem fram fór í nefndinni.

En ástæðan fyrir því að þetta var opnað með þeim hætti sem þarna var gert var sú að það liggur auðvitað fyrir að það er, eins og hv. þm. Ásta Möller rakti, fullt af starfsmönnum á sjúkrastofnunum sem þurfa og eru í samneyti við sjúklinga og þurfa að skrá upplýsingar í sjúkraskrá. Það var talið nauðsynlegt. Þessir hópar hafa nú þegar, a.m.k. upp að einhverju marki, verið að skrá upplýsingar í sjúkraskrá þó strangt til tekið sé það ekki heimilt. Þess vegna þótti nauðsynlegt að horfast í augu við þann veruleika og þess vegna er þetta mikilvæga ákvæði í 1. mgr. 5. gr. Þar segir:

„Einungis heilbrigðisstarfsmönnum og öðrum starfsmönnum og nemum í starfsnámi í heilbrigðisvísindum sem undirgengist hafa sambærilega trúnaðar- og þagnarskyldu og heilbrigðisstarfsmenn er heimilt að færa sjúkraskrárupplýsingar í sjúkraskrá.“

Kjarni málsins er að þess sé gætt kirfilega að þeir starfsmenn sem ekki eru heilbrigðisstarfsmenn þurfi að undirgangast þessa trúnaðar- og þagnarskyldu áður en þeim er heimilt að færa upplýsingar í sjúkraskrá.

Hins vegar er mjög mikilvægt að muna það líka að þagnarskylduákvæðið í lögunum um réttindi sjúklinga er útvíkkað ákvæði og það nær ekki eingöngu til heilbrigðisstarfsmanna. Það nær til allra starfsmanna í heilbrigðisþjónustu og það er með ráðum gert að útvíkka það einmitt til þess að undirstrika mikilvægi þess (Forseti hringir.) að þeir sem í þessari þjónustu starfa séu alltaf bundnir trúnaði og þagnarskyldu.