Heimild til samninga um álver í Helguvík

Föstudaginn 17. apríl 2009, kl. 17:19:49 (7879)


136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[17:19]
Horfa

Frsm. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er ljóst af þessum orðum ráðherra að samningurinn verður ekki staðfestur fyrr en úrskurður kemur frá ESA. Það kann að vera eftir einhverjar vikur eða svo. Þegar Kárahnjúkasamningurinn var samþykktur hér á Alþingi leið um það bil hálfur mánuður þangað til staðfesting kom frá ESA.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé tilbúinn til þess að bíða eftir næsta árshlutauppgjöri frá Century Aluminum — það er væntanlegt jafnvel núna fyrir kosningar — og skoða hvað verður um þennan samning ef horfur fyrirtækisins halda áfram að versna.

Ég fagna orðum hæstv. ráðherra um að hann muni sjá til þess í embætti sínu að ekki verði fleyttur rjóminn ofan af orkuauðlindum okkar í jarðhitanum. En ég hlýt að spyrja: Hvaðan á þá orkan að koma? Hvaðan á þá orkan til Helguvíkur að koma, til 360 þús. tonna álversins í Helguvík? Og hvaðan á orkan að koma í alla vistvænu framleiðsluna og starfsemina eins og í gagnaverum og öðru ef ekki á að fara þá leið sem orkufyrirtæki eins og Orkuveita Reykjavíkur ætla sér að fara?