Vatnalög

Þriðjudaginn 28. október 2008, kl. 14:08:07 (414)


136. löggjafarþing — 15. fundur,  28. okt. 2008.

vatnalög.

23. mál
[14:08]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frumvarp sem nú er komið til 3. umr. Ég fagna því að hin umdeildu vatnalög sem samþykkt voru með fyrirvara um gildistöku fyrir fáeinum missirum skuli nú vera komin á ís og búið að skjóta gildistökunni aftur til sumarsins 2010.

Ástæða þess að ég kveð mér hljóðs um málið núna er að vekja athygli á því að þingið þurfi að taka auðlindamálin almennt til umræðu. Í ljósi þeirra erfiðleika sem þjóðin gengur nú í gegnum held ég að það renni upp fyrir æðimörgum hve mikilvægt það er fyrir okkur Íslendinga að tryggja kirfilega eignarhald á auðlindum þjóðarinnar. Það verði ekki aðeins gert í lögum heldur einnig í stjórnarskrá landsins.

Við þyrftum að taka upp ýmsa lagabálka. Ég vek t.d. athygli á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu sem illu heilli voru samþykkt árið 1998 þar sem t.d. eignarhald á jarðhitanum var bundið einkaeignarrétti. Landeiganda voru þar með tryggð eignarréttindi á jarðvarmanum. Þar var um að ræða ríkari einkaeignarrétt en jafnvel gerist í Texas hvað varðar olíuna þar. Það var mikið óheillaspor og ég tel að það frumvarp hafi á sínum tíma verið einhver versta lagasmíð sem gengið hefur í gegnum þingið. Ég held að það væri ráð og beini því til hæstv. iðnaðarráðherra að taka þessi lög nú til endurskoðunar.

Við þurfum líka að huga að sjávarauðlindinni, að tryggja að eignarrétturinn á sjávarauðlindinni heyri þjóðinni til eins og reyndar kveðið er á um í lögum. (SKK: ... drepa útgerðina.)Að hann skuli tryggður þjóðinni. Drepa útgerðina, hrópar hv. þm. Sjálfstæðisflokksins, Sigurður Kári Kristjánsson, fram í. (GMJ: Hún er steindauð.) Það vakir ekki fyrir mér að vilja drepa sjávarútveg á Íslandi heldur vil ég tryggja það að sjávarauðlindin sé í eigu þjóðarinnar og sé ráðstafað af þjóðinni en sé ekki háð duttlungum markaðarins. Við ættum að gera okkur betur grein fyrir því nú en oft áður hve varasamt það er að vera háður duttlungum markaðarins hvað þetta snertir.

Ég hef reyndar vakið máls á því að sú hætta blasi við okkur núna í ljósi skuldsetningar sjávarútvegsfyrirtækja að þjóðinni verði gert að borga fyrir kvótann, að henni verði gert að borga fyrir kvótann með því að koma óbeint að þessum málum með því að veita skuldsettum sjávarútvegsfyrirtækjum stuðning. Hvers vegna eru þau svona skuldsett? Það er vegna þess að þau hafa fest kaup á kvóta frá aðilum sem margir hverjir fengu hann gefins, á silfurfati. Það er ástæðan fyrir því að sjávarútvegsfyrirtækin mörg hver eru mjög skuldsett. Þess vegna blasir það við að tillögur komi um að þjóðin kaupi að nýju af sér sína eigin eign.