136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[12:54]
Horfa

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna þess sem fram kom í máli hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, þar sem hann fjallaði um yfirlýsingar Seðlabanka Íslands um sérstakan samning við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, vil ég spyrja hann: Er slíkur samningur eða samningsdrög til? Hann lýsti því jafnframt yfir að hann hefði ekki séð neinn slíkan samning. Ef slíkur samningur er til eða hann hefur einhverja þekkingu á því er þá ekki skylda samkvæmt stjórnarskrá að bera slíkan samning undir eða fyrir Alþingi áður en gengið verður frá?

Hv. þingmaður spurði um tillögur stjórnarandstöðunnar. Þingflokkur Frjálslynda flokksins kynnti sínar tillögur í mörgum liðum í byrjun þessarar viku og ég bendi honum á að kynna sér þær. Hins vegar voru hugmyndir ríkisstjórnarinnar sem komu fram hjá forsætisráðherra heldur rýrar í roðinu. Hvaða tillögur voru birtar? Jú, erlend lántaka og hallarekstur á ríkissjóði. Var um einhverjar (Forseti hringir.) aðrar frekari tillögur að ræða?