Samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga

Föstudaginn 31. október 2008, kl. 14:09:19 (676)


136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

32. mál
[14:09]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Þessi tillaga til þingsályktunar um samkeppnisstöðu fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga er flutt af allmörgum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Flutningsmenn eru hv. þingmenn Ásta Möller, Birgir Ármannsson, Sigurður Kári Kristjánsson, Ólöf Nordal, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Guðfinna S. Bjarnadóttir, Ármann Kr. Ólafsson, Kristján Þór Júlíusson og Björk Guðjónsdóttir. Þetta lýtur að því hvernig megi huga að bættri samkeppnisstöðu einkaaðila varðandi ýmsa opinbera þjónustu. Það er mjög táknrænt að þetta skuli vera eitt fyrsta þingmál stórs hluta þingmanna Sjálfstæðisflokksins á þessu þingi. Þar er í rauninni verið að hvetja til aukinnar einkavæðingar í almannaþjónustunni, eins og rakið er í greinargerðinni.

Í greinargerðinni er einmitt vitnað til þess hve vel hafi tekist á undanförnum áratugum, með leyfi forseta:

„Á síðustu tveimur áratugum hefur ríkið markvisst dregið sig út úr samkeppnisrekstri. Fjölmörg fyrirtæki á vegum ríkisins hafa verið einkavædd og má þar m.a. nefna bankastarfsemi og fjarskiptaþjónustu.“

Þessu þingmáli var dreift í fyrra og það síðan endurflutt. Svo nöturlegt sem það gat verið var þessari einkavæðingarþingsályktunartillögu dreift hér á sama degi og síðasti bankinn var þjóðnýttur. Umrædd setning sem er höfð eins og kennileiti fyrir tillöguna — einkavæðing bankanna, hvað hún hafi tekist vel og síðan eigi að fara með aðra þjónustu í kjölfar hennar — það hrundi einmitt sama dag og tillögunni var dreift hér á Alþingi. Ég fagna því ekki að bankarnir hafi hrunið með þessum hætti, síður en svo, en þetta segir okkur að það er þessi harða einkavæðingarstefna sem við súpum nú seyðið af.

Það er alveg rétt eins og kemur fram í greinargerðinni að á sl. 17 árum, eða frá árinu 1991, hefur þessi einkavæðingarstefna ríkt. Einmitt í fyrstu ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, undir forsæti Davíðs Oddssonar, með Alþýðuflokknum og formanni hans, Jóni Baldvini Hannibalssyni, — svokallaðri Viðeyjarstjórn — er þessi einkavæðing almannaþjónustunnar, ríkisfyrirtækja, í rauninni sett á fullt og gerð að einu megininntaki þess stjórnarsáttmála.

Í Viðeyjarstjórnarsáttmálanum var kvótakerfið fest í sessi og framsal aflaheimilda veitt sem síðan var undirrót þess sem á eftir fór varðandi veðsetningu á óveiddum fiski og átti mikinn þátt í því sem síðan fór á eftir. Í stjórnarsáttmála Alþýðuflokksins og Sjálfstæðisflokksins frá 1991 segir: Eitt meginverkefni ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu verður að lækka ríkisútgjöld, breyta ríkisfyrirtækjum í hlutafélög, hefja sölu þeirra þar sem samkeppni verður við komið, breyta þjónustustofnunum í sjálfstæðar stofnanir sem taki í auknum mæli gjöld fyrir veitta þjónustu og verkefni í ríkisrekstri verði boðin út.

Þetta var eitt megininntakið í stjórnarsáttmála Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks árið 1991. Þessu var síðan fylgt mjög dyggilega eftir þegar Framsóknarflokkurinn gekk í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum árið 1995 og ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gengu undir nafninu einkavæðingarríkisstjórnirnar. Þá var gengið enn lengra og bankarnir einkavæddir, reyndar á grundvelli helmingaskiptareglunnar þannig að þeim var skipt upp á milli flokksgæðinga Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Það herti enn á þeirri spillingu í fjármálaheiminum sem við búum við enn þá og súpum seyðið af í dag. Þessi einkavæðing sem var sett í gang árið 1991 hefur síðan farið stigmagnandi.

Meira að segja í ríkisstjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar — það má segja eiginlega að Samfylkingin hafi á vissan hátt tekið sæti Jóns Baldvins og Halldórs Ásgrímssonar í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum — er einmitt áréttuð landsfundarsamþykkt Sjálfstæðisflokksins frá árinu 2007 um aukna einkavæðingu á nýjum sviðum í ríkisrekstrinum og sérstaklega eru nefnd t.d. heilbrigðisþjónustan og Íslandspóstur. Eins og haft var orðrétt eftir formanni Sjálfstæðisflokksins og núv. forsætisráðherra Geir H. Haarde í Morgunblaðinu 30. september 2007, þar stendur með leyfi forseta:

„Við vildum mynda ríkisstjórn þar sem hægt væri að þróa samfélagið áfram og gera víðtækari breytingar í ætt við okkar stefnu en kannski hefði tekist á öllum sviðum í fyrrverandi ríkisstjórn og var líklegt í annars konar samstarfi.“

Það er áfram áréttað:

„Þar eru ótrúlega miklir möguleikar fram undan sem Samfylkingin er tilbúin til að vera með okkur í en aðrir flokkar voru og hefðu ekki verið.“

Þarna er því verið að vitna til áframhaldandi einkavæðingarstefnu sem núverandi ríkisstjórn setti sér í sínum sáttmála og Sjálfstæðisflokkurinn hlakkaði svo til.

Nú er það svo að mjög mikilvægt er að virkja einstaklingsrekstur og einstaklingsframtak svo að það fái notið sín, einstaklingsframtakið. (ÓN: Frelsi einstaklingsins.) Frelsi einstaklingsins í félagslega sinnuðu samfélagi. Einkavæðing eins og hún nú hefur gengið fyrir sig hefur í raun og veru byggst á því að menn einkavæða fyrst og fremst gróðann og gróðavonina en þegar það fer á hina hliðina er tapið ríkisvætt. Þessi þingsályktunartillaga hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins um einkavæðingu í opinberri þjónustu er eiginlega nöturlegt dæmi um þá veruleikafirringu sem þessi ríkisstjórn, sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru haldnir. Það að nú sé það brýnasta að herða á einkavæðingu í opinberri þjónustu.

Hver er staðan í dag? Hún er ekki glæsileg. Nánast allir bankarnir eru orðnir ríkisvæddir. Það er talað um að einkavæðing Símans hafi tekist mjög vel. Það er kannski dæmi um einkavæðingu sem ekki tókst vel og hvernig er staðan nú? Ætli Síminn sé ekki að stórum hluta aftur kominn, (Gripið fram í.)með beinum eða óbeinum hætti, í eigu ríkisins? Ég fagna ekki því hvernig það gerðist en þetta er dæmi um gríðarleg mistök.

Hins vegar er ég ekki sammála því sem nú er einnig að gerast að ríkið skuli með beinum eða óbeinum hætti vera komið með mestalla matvöruverslun í landinu. Ég fagna því ekki, síður en svo, og ég tel að mjög mikilvægt sé að nú komi einmitt tími kaupmannsins á horninu. (ÓN: Einkaframtaksins.) Einstaklingsframtaksins, ekki einkaframtaksins. Hins vegar getur verið að verslun með matvöru sé svo mikilvæg grunnþjónusta í sumum byggðarlögum að þar verði opinberir aðilar að hlutast til um að hún sé til staðar.

Þessi þingsályktunartillaga sjálfstæðismanna um að nú sé brýnast að auka einkavæðinguna er (Forseti hringir.) ótrúlega veruleikafirrt, herra forseti.