Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 11. nóvember 2008, kl. 15:10:57 (963)


136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[15:10]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka yfirlýsingu um stuðning við að réttarfarsnefnd verði kölluð saman og málið fái að því leyti eðlilega þinglega meðferð.

Fjármálaeftirlitið hefur tekið yfir, ríkið tók yfir bankana með neyðarlögunum. Fjármálaeftirlitið og skilanefndirnar reka þessa banka núna. Samkvæmt því eru Fjármálaeftirlitið og skilanefndirnar skuldarar eða eigendur í anda gjaldþrotaskiptalaganna. Það er með hagsmuni þeirra í huga sem reka á þessi fyrirtæki áfram í allt að 24 mánuði héðan í frá eða eftir að þeir fá greiðslustöðvun.

Ég fæ annað ekki séð en að það sé nákvæmlega það sem ég sagði, að menn treysti stjórn og framkvæmdastjóra Fjármálaeftirlitsins betur til að reka bankana áfram frekar en að setja þá í eðlilega skiptameðferð vegna þess að þeir eru de facto gjaldþrota.

Hv. þingmaður talar um ást vinstri grænna á gjaldþrotaskiptalögunum. Ég skal ekki lýsa þeirri ást hér. Ég tel að það megi margt bæta í þeirri löggjöf en hér er ekki verið að gera það. Hér er verið að taka úr sambandi grundvallaratriði í gjaldþrotaskiptalögunum. Ef menn hafa eitthvað upp á gjaldþrotaskiptalögin að klaga og vilja breyta þeim, af hverju gildir það þá ekki um alla? Af hverju gildir það ekki um öll fyrirtæki? Við fáum fregnir af því núna dag eftir dag að fyrirtæki koma inn til gjaldþrotaskipta. Skyldu nú ekki einhver þeirra vilja fá þá undanþágu og það frávik frá lögunum sem hér er verið að lýsa, hv. þingmaður?