Húsnæðismál

Þriðjudaginn 11. nóvember 2008, kl. 17:08:03 (986)


136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

húsnæðismál.

137. mál
[17:08]
Horfa

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál sem hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hefur mælt fyrir. Ég vil í örfáum orðum segja að ég fagna frumvarpinu. Ég held að í því séu ákveðnir þættir sem eru til bóta, sérstaklega í því ástandi sem við erum í í dag. En auðvitað er það svo að það er tiltölulega stutt liðið síðan efnahagslegar hremmingar riðu yfir þjóðfélagið og við erum að sjálfsögðu ekki farin að sjá afleiðingarnar af því enn þá og því ekki hægt að sjá í dag hvernig þetta muni allt saman þróast. En auðvitað gerum við ráð fyrir því að mörg heimili muni lenda í ákveðnum vandræðum með að greiða af húsnæðislánum sínum. Það er eitthvað sem við sjáum fyrir okkur.

Það frumvarp sem hér er til umræðu felur í sér úrræði til þess að bregðast við slíkum vanda og það er vel. Þó svo að að öðru leyti sakni maður þess að ríkisstjórnin kynni ekki áætlanir varðandi framgang mála eins og við hv. alþingismenn höfum margoft rætt þá saknar maður þess að ríkisstjórnin skuli ekki hafa einhver plön varðandi það hvernig eigi að bregðast við. En auðvitað er von til þess að þau birtist.

Aðeins örlítil spurning til hæstv. ráðherra þótt þetta atriði hafi að vísu verið rætt í andsvörum áðan. Það var talað um að húseigendur sem missa húsnæði geti fengið viðkomandi íbúðir leigðar til skamms tíma. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvaða tíma er þar verið að tala um? Mér fannst svarið í andsvari frekar óljóst. Og einnig hitt hvort gert verði ráð fyrir því að viðkomandi aðilar sem fá að leigja íbúðir með þessum hætti hafi einhvers konar forkaupsrétt á því húsnæði eftir að fjárhagur vænkast.

Varðandi Íbúðalánasjóðinn að öðru leyti þá er auðvitað búið að ræða ýmsar aðgerðir til þess að koma til móts við hugsanlegan vanda húseigenda. Ég vil hins vegar leyfa mér af þessu tilefni að brýna hæstv. ráðherra í því að gæta að hagsmunum Íbúðalánasjóðs. Það er auðvitað hægt að ganga svo langt í aðgerðum að fjárhagsstöðu Íbúðalánasjóðs sé stefnt í tvísýnu en það þarf að gæta að fjárstreymi Íbúðalánasjóðs. Mín aðvörunarorð eru því einfaldlega þau að þess sé gætt að ganga ekki það nærri fjárhagslegri stöðu sjóðsins að við lendum í vandræðum með hann þegar frá líður. Það er auðvitað mjög mikilvægt að gæta að því þó svo að við viljum öll finna leiðir til að koma til móts við vanda þeirra sem skulda Íbúðalánasjóði.

Ég ætla, virðulegi forseti, ekki að hafa þetta öllu lengra. Ég lýsi stuðningi við það frumvarp sem hér liggur fyrir. Það kom fram í umræðu áðan hversu vel það kemur sér fyrir okkur núna að hafa Íbúðalánasjóð. Það var gerð hörð hríð að þeirri stofnun fyrir nokkrum árum af hálfu bankanna og ýmissa annarra aðila. Við framsóknarmenn fórum með félagsmálaráðuneytið á þeim tíma og beittum okkur í því að verja stöðu Íbúðalánasjóðs. Það var eins gott að það var gert því í þeirri stöðu sem við erum í núna er Íbúðalánasjóður til staðar, öflug stofnun og það kemur sér vel.

Það var eitt atriði sem var vikið að áðan, varðandi ESA. Ég hef reyndar spurt hæstv. ráðherra að þessu áður. En eftir þá umræðu hef ég það einhvern veginn á tilfinningunni að sjónarmiðin í ríkisstjórninni séu ekki alveg eins rakin og þá kom fram hjá hæstv. ráðherra. Ég vil því endurtaka spurninguna: Hvað verður með það mál sem liggur fyrir ESA, eftirlitsstofnuninni, þ.e. kæru bankanna á hendur Íbúðalánasjóði? Nú hefur ríkið eignast alla þessa banka og því held ég að það sé mikilvægt að skera úr um í eitt skipti fyrir öll hvað verður með það mál og því leyfi ég mér að beina þeirri spurningu aftur til hæstv. ráðherra þó að við höfum rætt það áður.