Atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa

Fimmtudaginn 13. nóvember 2008, kl. 12:05:29 (1076)


136. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2008.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

115. mál
[12:05]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kann að vera rétt, sem hv. þingmaður bendir á, að erfitt geti verið að sanna að þetta hafi verið að kröfu vinnuveitanda og ég held að rétt sé að taka þessu sem góðri ábendingu um framkvæmd laganna að þegar sótt er um bætur vegna hlutaatvinnuleysis sé skráð af hverju. Forsenda þess að fá það skráð núna er að það sé að ósk atvinnurekanda, að viðkomandi hafi verið beðinn um að minnka vinnuhlutfall. Umsækjandi þarf að gera grein fyrir hvers vegna hann sækir um hlutaatvinnuleysisbætur á móti fullri vinnu og á að fá frávik hvað varðar að vera á tekjutengdum atvinnuleysisbótum, án þess að það skerði tekjutengdar atvinnuleysisbætur síðar. Þetta kann að vera óljóst en ég vona að skýringin sé klár, hugmyndin er að umsækjandi veki athygli á því þegar hann sækir um bætur og hafi hann gert það með formlegum hætti hefur hann plagg um að svo hafi verið. Þeirri ábendingu þarf að koma til Vinnumálastofnunar að hún skrái þegar fólk sækir um slíkar bætur. Skilgreiningin er afar skýr og klár fyrir okkur en ef eitthvað í textanum gæti orkað tvímælis er ástæða til að endurskoða það síðar.

Við höfum tíma núna á milli umræðna til að kíkja á þetta ef ástæða er talin til en fyrir mér er þetta nægjanlega skýrt og ég treysti á að það sé þannig almennt.